133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

ákvæði íslenskra laga um hreinsun á strandstað.

[13:54]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Bara örstutt, herra forseti. Það kom fram í umræðunni áðan að þegar Víkartindur strandaði hefði ekki verið skýr lagaheimild í lögum fyrir skyldu á eigandann að fjarlægja skipið. Í því tilviki brást eigandi eða vátryggingarfélag skipsins við og gerði betur en lagaákvæðin stóðu til og þar var mjög vel að öllu staðið.

Í kjölfarið var ráðist í það hér á Alþingi að breyta þeim lögum og taka skýrt fram að sú skylda hvílir á eiganda skips að fjarlægja flak af strandstað. Auðvitað er það þannig að við byggjum á þessu ótvíræða ákvæði í lögunum um varnir gegn mengun hafs og stranda, eins og hefur komið fram í máli hv. samgönguráðherra.

Það vill svo til vegna, m.a. veðuraðstæðna, að það þótti nauðsynlegt við þá lagasetningu að gefa sex mánaða frest fyrir eiganda skipsins að standa að því og nú er beðið eftir því annars vegar að eigandi skipsins ráðist í að greiða þann kostnað sem hefur hlotist af eftirliti og aðgerðum Umhverfisstofnunar til að koma í veg fyrir bráðamengun á staðnum og jafnframt að þeir leggi fram áætlun um hvernig þeir ætli að standa að aðgerðum, þ.e. áhættumat gagnvart umhverfistjóni og þeir leggi það fram við Umhverfisstofnun.

Þetta er staðan í málinu núna og ég sé enga ástæðu til, herra forseti, að fara eitthvað að velta vöngum yfir því í ræðustóli Alþingis, að ef menn ekki bregðast við eins og lögin kveða skýrt á um að þeir eigi að gera, hvað eigi þá að gera. Þetta er það sem við byggjum á. Þetta eru lögin sem Alþingi hefur sett og skyldan er ótvíræð.