133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

fyrirspurnir á dagskrá.

[13:58]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Fróðlegt væri að vita og sjálfsagt að forseti gefi upplýsingar um hvaða ráðherrar eru fjarri. Í hvaða erindum þeir eru og hvaða fyrirspurnum þeir gætu hafa verið að svara.

60–70, sagði hv. þm. Kristján Möller áðan, að fyrirspurnirnar væru að tölu sem bíða. Sumar þeirra, m.a. frá mér, eru frá því í október í fyrra, frá fyrsta mánuði þingsins og hefur ekki enn verið svarað. Þetta á við um munnlegar fyrirspurnir en til eru líka skriflegar fyrirspurnir sem ekki hefur verið svarað. Kannski eru ráðherrarnir að dunda við það á milli leikja í útlöndum að svara þeim.

Þetta er aldeilis fráleit frammistaða af ráðherra hálfu á meðan það er þannig hér á þinginu, að í a.m.k. annarri þeirri nefnd sem ég sit í, menntamálanefnd, er verið að knýja menn mjög til verka.

Þar hefur það gerst í dag og í gær að þrjú þingmál eru send til umsagnar og umsagnaraðilar eiga að fá viku til verksins til að umsagnir séu tilbúnar í tæka tíð fyrir nefndardaga, fimmtudaginn og föstudaginn í næstu viku, 8. og 9. febrúar. Þeir eiga að fá viku. Þetta eru flókin mál. Eitt þeirra er mál Kennaraháskólans. Annað er um grundvallarbreytingar á námsgagnagerð fyrir grunnskóla. Það þriðja er umdeilt frumvarp um æskulýðsmál sem var að vísu flutt í fyrra en komst þá ekki úr nefndinni.

Það liggur svo á að afgreiða frumvörp þessara sömu ráðherra, sem ekki eru hér staddir, að það á að gefa fræðimönnum, rannsóknastofnunum, félagasamtökum o.s.frv. viku, eina viku til að skila umsögnum.

Maður hlýtur að spyrja úr því að taka þarf svona mikið á á Alþingi Íslendinga, það er svona bráðnauðsynlegt að gera þetta fyrir vorið, af hverju eru þá ekki hæstv. ráðherrar hér að hjálpa til við þau verk? Af hverju eru þeir ekki að greiða fyrir þingstörfum í staðinn fyrir að vera í erindum sem sum hver að minnsta kosti virðast ekki mjög brýn?

Ég verð að segja með mennta-, vísinda-, æskulýðs- og íþróttaráðherra, mér finnst alveg eðlilegt að hún sé viðstödd að einhverju leyti þegar miklir atburðir verða á sviði hennar erlendis.

En ég sá ekki betur í leiknum í gær en að þar væri stödd líka hæstv. utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir. (Gripið fram í: Það voru milliríkjadeilur.) Kannski var það (Forseti hringir.) milliríkjadeila eins og þingmaður segir hér í salnum, en þá verða þær nú nokkuð margar og miklar ferðir sem utanríkisráðherra þarf að fara ef hún ætlar að vera viðstödd allar milliríkjadeilur af þessu tagi sem fara fram á hverju ári.