133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

lagabreytingar sem fullgilding Árósasamningsins hefði í för með sér.

203. mál
[14:16]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Hv. þm. Mörður Árnason spyr mig hvað líði störfum nefndar sem umhverfisráðherra hafi skipað í febrúar 2005 til að gera úttekt á þeim lagabreytingum sem fullgilding Árósasamningsins frá 1998 hefur í för með sér.

Því er til að svara að nefnd sem var falið það verkefni að fara yfir ákvæði Árósasamningsins, frá 25. júní 1988, um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum skilaði skýrslu sinni til umhverfisráðherra í lok september sl. eða nánar tiltekið 28 september. Nefnd þessi var skipuð af þáverandi umhverfisráðherra, Sigríði Önnu Þórðardóttur, á grundvelli ákvörðunar ríkisstjórnarinnar frá því í nóvember 2004. Í nefndinni áttu sæti auk fulltrúa umhverfisráðuneytisins, fulltrúar sjávarútvegsráðuneytis, landbúnaðarráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Hef ég þá talið upp þau ráðuneyti sem áttu fulltrúa í nefndinni.

Hlutverk þessarar nefndar var að greina efni Árósasamningins, m.a. hvaða opinberar leyfisveitingar falla undir samninginn samkvæmt gildissviði hans. Þá var nefndinni ætlað að fara yfir hvaða breytingar þurfi að gera á lögum ef Ísland fullgildir Árósasamninginn. Nefndinni var að þessu sinni ekki falið að gera tillögur að lagafrumvörpum heldur meta hvaða skuldbindingar fullgilding Árósasamningsins mundi kalla yfir íslensk stjórnvöld. Ekki hefur verið tekin afstaða til þessarar skýrslu en hún hefur hins vegar hefur verið kynnt í ríkisstjórninni. Sú nefnd sem hér hefur verið margnefnd gerði ítarlega greiningu á því hvaða ákvæði íslenskra laga ákvæði Árósasamningsins gætu haft áhrif á. Fulltrúar þeirra ráðuneyta sem áttu sæti í nefndinni fóru í þessu skyni yfir alla þá löggjöf sem heyrir undir ráðuneyti þeirra og auk þess leitaði nefndin eftir upplýsingum frá samgönguráðuneytinu og forsætisráðuneytinu. Hvað varðar fyrstu tvær stoðir Árósasamningsins sem varða aðgang að upplýsingum um umhverfismál og rétt til þátttöku í ákvörðunum um umhverfismál, þá er það niðurstaða nefndarinnar að lög um upplýsingarétt um umhverfismál, nr. 23/2006, lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, ásamt síðari breytingum, og lög um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006, kveði með fullnægjandi hætti á um þau réttindi og uppfylli því kröfur samningsins að því leyti.

Hvað varðar þriðju stoð Árósasamningsins sem fjallar um svonefndan aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum þá er það niðurstaða nefndarinnar að íslensk lög uppfylli að meginstefnu til ekki kröfur samningsins og því þurfi að gera breytingar á lögum komi til fullgildingar hans. Það skal þó tekið fram að framkvæmdarleyfi sveitarstjórna vegna matsskyldra framkvæmda uppfylla kröfur Árósasamningsins að þessu leyti eftir breytingar sem gerðar voru á lögum um mat á umhverfisáhrifum vorið 2005. Samkvæmt samningnum skal almenningur sem málið varðar, eins og segir í samningnum, hafa aðgang að endurskoðunarleið fyrir dómstólum eða óháðum úrskurðaraðilum innan stjórnsýslunnar vegna útgáfu leyfa til framkvæmda sem haft geta umtalsverð umhverfisáhrif eða ef stjórnvald vanrækir að krefjast leyfis fyrir tiltekinni starfsemi þrátt fyrir lagaskyldu þar um. Leyfi vegna framkvæmda sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum og heyra undir iðnaðarráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, forsætisráðuneyti og umhverfisráðuneyti. Umhverfisverndarsamtök sem uppfylla skilyrði samkvæmt landsrétti skulu ávallt teljast falla undir hugtakið almenningur sem málið varðar og njóta þannig kæruréttar samkvæmt samningnum án þess að þurfa að sýna fram á lögvarða hagsmuni.

Að mati nefndarinnar kallar fullgilding Árósasamningsins á eftirfarandi breytingar á íslenskum lögum: Tryggja þarf að unnt sé að leggja ákvarðanir um útgáfu leyfa vegna matsskyldra framkvæmda fyrir dómstóla eða óháða úrskurðaraðila til endurskoðunar og að umhverfisverndarsamtök geti átt aðild að slíkum málum. Í því sambandi er unnt að velja á milli tveggja leiða, annars vegar stjórnsýsluleiðar og hins vegar dómstólaleiðar. Jafnframt þyrfti að breyta ákvæðum um aðild að kröfu um lögbann þannig að umhverfiverndarsamtök geti átt aðild að slíkri kröfu. Enn fremur þyrfti að huga að sérákvæðum um skilyrði lögbannstryggingar í málum vegna leyfisveitingar fyrir matsskyldar framkvæmdir þannig að hún væri felld niður eða fjárhæð þeirra skyldutakmarka.