133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

loftslagsmál.

293. mál
[14:54]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Mig langar að koma örlítið inn í þessa umræðu. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda Helga Hjörvar fyrir þessa fyrirspurn og jafnframt vil ég þakka umhverfisráðherra fyrir innlegg hennar í umræðuna, mér finnst það vera við hæfi sem hér hefur komið fram. Mér finnst hins vegar umræðan ekki vera nóg á hnattrænum nótum. Við erum nefnilega ekki þau einu sem um þessi mál fjöllum. Við áttum þess kost að vera seinni partinn á mánudaginn á lítilli ráðstefnu á vegum Norðurlandaráðs þar sem var verið að ræða vandamálið í nágrannalöndunum okkar, þar nota menn eldsneyti svo sem kol, gas, olíu og eru að fara að byggja upp kjarnorkuver til að fullnægja orkuþörf sinni. Mér finnst að við eigum að líta það sem hér er verið að gera svolítið jákvæðum augum og þær aðstæður sem hér eru og hvernig við getum haldið áfram að nota náttúruauðlindir okkar til að byggja upp þetta land.