133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

loftslagsmál.

293. mál
[14:57]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum? Ég hef í fyrra svari mínu gert honum grein fyrir því hverjir eru megindrættirnir í þeirri stefnu. Það er alveg hárrétt að það er sjálfsagt að ríkið setji sér til lengri tíma töluleg markmið með þennan hnattræna vanda, prósentutölu um það hvar þeir ætli að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Evrópusambandið kastar fram tölu en það hefur ekki nokkra þýðingu að setja fram slíkt markmið nema menn ætli jafnframt að átta sig á því hvernig markmiðinu verði náð, þannig að annað kemur ekki í veg fyrir hitt. Menn setja sér ekki bara markmið en greina síðan ekki frá leiðunum hvernig þeir ætli sér að ná þeim, við þurfum öll að taka þátt í þessu. Ég var að gera grein fyrir hvernig við höfum unnið að þessari stefnu og jafnframt að við höfum náð árangri með þeim leiðum sem við höfum verið að vinna eftir. Gagnvart spurningunni hver stefnan sé tel ég mig hafa svarað henni til fulls og ég gerði grein fyrir því hvernig hún hefur verið útfærð og hvaða árangur hefur náðst með henni.

Ég sagði jafnframt í fyrra svari mínu, herra forseti, að ný og uppfærð stefna væri handan við hornið og ég geri ráð fyrir því að ræða hana, þ.e. stefnu ríkisstjórnarinnar, mjög fljótlega á þessum vettvangi við fyrirspyrjanda og aðra sem láta sig þessi mál varða. Þar komi fram markmið sem stefnt verður að á ákveðnu árabili fyrir og eftir Kyoto-skuldbindingartímabilið.

Svo vil ég loks, herra forseti, taka undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Kjartans Ólafssonar. Þau tilteknu mál sem hér eru til umræðu eru hnattrænn vandi en ef maður fylgist með umræðum um orkubúskapinn almennt, úti um allan heim, í löndunum sem standa okkur nær, í Bretlandi, á Norðurlöndunum, hjá Finnum, þá eru menn að tala um að þeir ætli að afla sér orku með kjarnorku, vegna þessa vanda. Það er eitthvað sem margir mega ekki heyra minnst á í umræðunni um umhverfismál í víðara samhengi. Aðstaða okkar er mjög sérstök.