133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

dragnótaveiðar.

399. mál
[14:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra um hvaða sjónarmið séu lögð til grundvallar banni og/eða takmörkunum á dragnótaveiðum. Ég óskaði eftir upplýsingum um ástæður fyrir alfriðun svæða, árstíðabundnum takmörkunum, mismunandi takmörkunum á stærð fiskiskipa og mismunandi kröfum um samsetningu afla.

Það hafa verið átök um dragnótaveiðar frá því ég man eftir mér. Það er mjög eðlilegt vegna þess að þessar veiðar fara fram á grunnslóð og býsna oft á heimamiðum nærliggjandi fiskiþorpa og bæja sem þróuðust á sínum tíma vegna þeirra möguleika sem næstliggjandi fiskimið gáfu til veiða. Þær hafa alltaf þau áhrif að aðrar veiðar þýðir lítið að reyna á þeirri fiskislóð. Það má eiginlega segja að dragnótabátarnir fái einkarétt til að veiða á bleyðunum sínum.

Nú stendur meðal annars styr um veiðar í Skagafirði. Í ágætri grein sem Steinar Skarphéðinsson skrifar nú um áramótin undir fyrirsögninni Sjávarútvegsráðherra hunsar óskir Skagfirðinga kallar hann veiðarnar sjóræningjaveiðar á grunnslóð og segir að eftir standi auðnin ein. Frá Hafrannsóknastofnun kemur þó alltaf sama staðlaða svarið: Engin fiskifræðileg rök eru fyrir því að banna dragnótaveiðar. Sammála henni er Níels Ársælsson sjómaður sem segir í grein frá síðasta hausti að veiðislóð dragnótarinnar sé eins og frjór akur bóndans sem yrkir landið af alúð og dugnaði. Dragnótin er stórkostleg líkt og ástargyðjan Venus, hljómur hennar og yndisþokki ægifagur, segir sá ágæti skrifari.

En er þetta rétt? Þróun þessara veiða hefur orðið mikil. Einu sinni voru hér veiðar með landnót. Ummerkin um landnótina má enn sjá í Skarðsvík á Snæfellsnesi svo ég taki dæmi. Þetta var bannað. Voru engin fiskifræðileg rök fyrir því? Áður voru einungis litlir bátar með afllitlar vélar við þessar veiðar og kasthringurinn var lítill. Nú eru stórir bátar á þessum veiðiskap og kasthringurinn gríðarlega stór, allt að 7 km.

Átök um veiðarnar hafa oft verið mikil og þegar þau urðu um Faxaflóann á sínum tíma þá komust menn að þeirri niðurstöðu að þar mættu skipin einungis vera 22 metrar á lengd og hlutfall þorsks í veiðunum má þar ekki fara yfir 15% en stundum reyndar 30%. Því er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra: Ef það eru engin fiskifræðileg rök eru rökin þá ekki atvinnupólitísk og hver eru þá viðhorf og hver er stefna ráðherrans? Hvað leggur hann til grundvallar afstöðu sinni? Í ljósi þessa alls saman spyr ég: Hver eru áhrif heimamanna, annars vegar útgerðarmanna og hins vegar sveitarstjórnarmanna á ákvarðanir ráðuneytisins (Forseti hringir.) um takmarkanir á dragnótaveiðum?