133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

svæðisbundin fiskveiðistjórn.

401. mál
[15:17]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður getum þó verið sammála um eitt og það er að ekki er árangursríkt eða líklegt til árangurs við fiskveiðistjórn eða uppbyggingu fiskstofna, að stjórna því bara með einu eða sér aflamarki, þ.e. heildaraflamarki, alveg burt séð frá því við hvaða fiskveiðistjórnaraðferð við búum, hvort sem það er aflamark eða sóknarmark. Það þarf mjög margt annað að koma til. Þetta er, held ég, flestum löngu orðið ljóst.

Ef við förum aðeins yfir það hvernig við stöndum að fiskveiðistjórn okkar, þá gefum út heildaraflamark sem síðan er deilt niður á tiltekin skip en síðan eru þau skip líka látin lúta alls konar annarri stjórn. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði áðan. Það er ekki bara þannig að menn segi að það sé sama hvar og hvernig veiðarnar fari fram. Við erum með alls konar aðrar reglur sem banna togveiðar við tilteknar aðstæður, banna tiltekna gerð af togveiðarfærum, við erum með hrygningarstopp o.s.frv. Það er hluti af þeirri svæðisbundnu fiskveiðistjórn sem hv. þingmaður var að kalla eftir. Ég held að ef við skoðum þetta nokkuð vel sjáum við að hin svæðisbundna fiskveiðistjórn er mun meiri en margan grunar í upphafi. Ef við skoðum t.d. þau miklu bönn og þær miklu takmarkanir sem við höfum, t.d. í togveiðum hér við land, blasir ansi skrautleg mynd við okkur. Kort sem menn geta séð af þessu sýnir okkur þetta svart á hvítu.

Hv. þingmaður vék einnig að öðru. Hann velti fyrir sér, eins og hefur þegar komið fram í fréttum, hvort um fleiri en einn þorskstofn sé að ræða. Og þá verður að játa að málið verður töluvert flóknara. Tillögur Hafrannsóknastofnunar hafa ávallt miðast að því að stjórna beri fiskveiðum hér við land eins og um einn þorskstofn væri að ræða. Verði breyting á þeirri afstöðu hlýtur að koma til þess að þorskveiðum verði stjórnað meira með tilliti til þess sem um fleiri staðbundna stofna væri að ræða.

Ég reyni þá að svara frekar þessari spurningu með skírskotun til þess en ekki þeirra vangaveltna minna áðan um svæðisbundna fiskveiðistjórn að öðru leyti. Auðvitað þarf að velta því fyrir sér hver eigi að vera markmið stjórnar, hvort svæðisbundin stjórn sé eftirsóknarverð í fiskveiðistjórnarlegu og fiskverndarlegu tilliti varðandi uppbyggingu þorskstofnsins, hversu framkvæmanleg hún er. Fyrsta atriðið sem ég nefndi hlýtur þó fyrst og fremst að horfa til þess hvort líkur væru á að við næðum markvissari nýtingu og verndun og þá umfram allt uppbyggingu þorskstofnsins.

Eins snertir svæðisbundin stjórn lokun svæða til verndunar á fiskungviði eða viðkvæmum búsvæðum, einkum á hafsbotni, eins og ég fór yfir, en það er aftur á móti önnur og lengri saga. Lengi hefur verið vitað að þorskur hrygnir víða umhverfis landið og einnig að hann dreifist mjög mikið eftir hrygningu. Þetta kemur m.a. fram í ritum Bjarna Sæmundssonar frá upphafi síðustu aldar og í nýlegum rannsóknum, bæði Hafrannsóknastofnunar og Háskóla Íslands. Jafnframt hafa slíkar rannsóknir gefið vísbendingar um erfðafræðilegar afmarkaðar hrygningareiningar þorsksins. Merkingartilraunir hafa aftur á móti sýnt fram á að þorskur gengur víða og blandast saman utan hrygningarsvæða. Á veiðislóð utan hrygningartíma er veitt úr mörgum hrygningareiningum og því erfitt að beina veiðum að ákveðnum þætti. Af þeim sökum er næsta ómögulegt að stjórna veiðum úr einstökum hrygningarstofnum eða hrygningareiningum, nema ef veiðar væru eingöngu stundaðar á hrygningartíma, vegna þess að það er einfaldlega þannig að þó að þetta séu margir stofnar blandast þeir eftir hrygningartímann. Það mætti hins vegar vernda ákveðnar mikilvægar hrygningareiningar, ef það væri það sem við vildum stefna að í þessu sambandi, með auknum svæðalokunum yfir hrygningartímann. Mér fannst að verið væri að kalla eftir því að hluta til í umræðunni áðan, að því gefnu að samhliða væri verið að draga úr heildarsókn þannig að sóknin aukist þá ekki á öðrum hrygningarsvæðum rétt á meðan. Ein ákvörðun hefur auðvitað áhrif á aðra og þegar við ætlum að reyna að ná árangri í því að draga úr veiðum á hrygningartíma er það enginn sérstakur árangur ef við síðan flytjum hann til milli svæða.

Það er auðvitað ljóst mál að aukin vitneskja með frekari rannsóknum á líffræði, atferli og vistfræði þorsks við Ísland mun varpa frekara ljósi á mikilvægi staðbundinna hrygningareininga í nýliðun þorsks og hvernig taka megi tillit til þeirra við fiskveiðistjórnina. Að mínu mati er þetta ákaflega athyglisvert og áhugavert mál og er verið að rannsaka það miklu meira en áður. Bæði er verið að skoða erfðamengi þorskstofna, ekki bara með tilliti til þess hvar þeir eru, heldur líka á hvaða dýpi þeir veiðast og þar á meðal hafa slíkar rannsóknir verið framkvæmdar á vegum Einars Árnasonar í Háskóla Íslands. Þetta eru allt saman mjög áhugaverðir hlutir sem gera hins vegar fiskveiðistjórnina örugglega ekki auðveldari nema síður væri.