133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

vaxtarsamningur Vestfjarða.

528. mál
[15:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni.

Ljóst er að strax þarf að grípa til róttækra og raunhæfra aðgerða í þessum landshlutum svo koma megi í veg fyrir áframhaldandi fólksflótta og samdrátt í atvinnulífinu. Bæjaryfirvöld í Ísafjarðarbæ gerðu sína eigin byggðaáætlun sem vaxtasamningur Vestfjarða byggist á. Ótal góðar hugmyndir koma þar fram sem efla mundu búsetuskilyrði en fjármagn skortir til að unnt sé að hrinda þeim hraðar í framkvæmd.

Bæjarráð Blönduóss hefur lýst áhyggjum sínum yfir stöðu mála á Norðurlandi vestra og neikvæðum hagvexti þar samkvæmt skýrslu um hagvöxt landshluta. Það skorar á stjórnvöld að grípa til raunhæfra aðgerða og að vaxtasamningur á því svæði verði efldur enn frekar.

Fjórðungssamband Vestfjarða hefur kallað eftir hraðari samgöngubótum þar sem landshlutinn hefur setið eftir miðað við aðra. Það kom því úr hörðustu átt að fresta ætti vegaframkvæmdum í þessum landshluta, þar sem samdráttur ríkti vegna þenslu í þjóðfélaginu annars staðar. Fram hefur komið að framlög til atvinnuþróunarfélaga hafi í raun lækkað en Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða er ætlað að sjá um framkvæmd vaxtarsamnings Vestfjarða. Atvinnuþróunarfélögum er ætlað að vera hornsteinar í atvinnuþróun á sínu svæði.

Ég vil brýna hæstv. iðnaðarráðherra til pólitískra aðgerða í byggðamálum þar sem landsbyggðin á undir högg að sækja og hrun getur orðið á veikustu svæðum ef ekkert er að gert. Hrinda þarf í framkvæmd raunhæfri uppbyggingu í þessum landshlutum þar sem íbúar bíða óþreyjufullir eftir aðgerðum. Efna þarf loforð forvera hæstv. iðnaðarráðherra í formannsstól Framsóknarflokksins. Halldór Ásgrímsson lýsti því yfir sem forsætisráðherra að röðin væri komin að þessum landshlutum sem sannarlega hefðu dregist aftur úr í byggðaþróun og löngu væri orðið tímabært að athafnir fylgdu orðum stjórnmálamanna og þeir létu verkin tala.