133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

vaxtarsamningur Vestfjarða.

528. mál
[15:42]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég held að þótt margt megi segja um vaxtarsamningana þá séu þeir meira en sandkorn eitt. En auðvitað eru þeir einir og sér ekki til að fylla út í þá mynd af þróuninni sem allir vilja sjá.

Ég er sammála þeim orðum sem hér var vitnað til, sem Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra lét sér um munn fara, um málefni þessa landshluta. Ég tek undir þau.

Ég tek ekki undir vafasamar ályktanir og sumar fráleitar sem hér hafa komið í þessari annars ágætu umræðu. En ég vísa til þess að fyrst um sinn eru meginverkefnin á vegum stjórnvalda framkvæmd vaxtarsamningsins fyrir Vestfirði og undirbúningur og gerð sambærilegs vaxtarsamnings fyrir Norðurland vestra. En ég tek heils hugar undir áhyggjur og hvatningarorð sem hér hafa fallið hjá hv. þingmönnum og komið hafa frá sveitarstjórnarmönnum og íbúum svæðisins.