133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

uppsagnir fangavarða – samgönguáætlun.

[10:46]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Seinagangurinn í framlagningu samgönguáætlunar er ámælisverður út af fyrir sig og fráleitur, hann skapar þá spennu sem er í umræðunum um samgöngumál af því að fréttir leka út um að átök séu innan stjórnarflokkanna um einstök verkefni. Fréttir fara út um það, í hinum og þessum fjölmiðlum að sjálfsögðu, að samgönguáætlun sé dögum saman í þingflokkum stjórnarflokkanna og þar liggi fyrir að svíkja eigi gefin fyrirheit um 2+2 veg austur fyrir fjall, fara 2+1 veg og í sambandi við það með einhverjum undarlegum skollaleik að kalla það tvöföldun á tíu árum.

Þetta er undansláttur í málinu og flótti hæstv. ráðherra á bak við það að dögum og vikum saman, viku eftir viku, megi ekki ræða samgöngumál á Alþingi Íslendinga af því að hann sé alveg að koma með samgönguáætlun. Er ekki kominn tími til að þeim skollaleik linni og hæstv. ráðherra svari skýrt og skorinort fyrir málaflokk sinn og þau meginverkefni sem deilt er um í þeim málaflokki? Þetta snýst um umferðaröryggismál, alvarlegt ástand á vegum landsins. Sunnlendingar og þeir sem berjast fyrir tvöföldun vegar austur fyrir fjall hafa hafnað því að fara eigi svokallaða 2+1 leið afdráttarlaust. Þar er samstaða sveitarfélaga og þingmanna sem hafa lýst yfir stríði á hendur samgönguráðherra. Það er stríðsástand í Sjálfstæðisflokknum í samgöngumálum ef þær yfirlýsingar hv. þm. Kjartans Ólafssonar frá því fyrr í janúar ganga eftir, sem engin ástæða er til að efast um, þá á samgönguráðherra í stríði við sinn eigin samflokksmann. (Gripið fram í.) Fjöldinn allur af sunnlenskum þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum er órofa á bak við það að 2+1 lausnin sé bráðabirgðalausn sem verði dýrari þegar upp verður staðið, þá leið komi ekki til greina að fara. Það á að fara 2+2 leiðina, og þeirri einföldu spurningu var beint til hæstv. ráðherra hvort hann gæti ekki skorið úr um hvað hann leggi til í samgönguáætlun (Forseti hringir.) að gera eigi í þessum málum.