133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

uppsagnir fangavarða – samgönguáætlun.

[10:49]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hélt sínu striki eins og fyrri daginn og virtist ekki hafa heyrt neitt af því sem sagt var um það efni sem hann hóf umræðu um undir liðnum um störf þingsins.

Það er stöðugt verið að ræða hér um samgöngumál, næstum í hverjum einasta fyrirspurnatíma er fjallað um einhverja þætti samgöngumála. Það er eðlilegt vegna þess að þau eru svo mikilvæg í samfélagi okkar.

Ég minni hv. þingmenn á og undirbý þá undir umræðuna um samgönguáætlunina sem verður væntanlega umfangsmikil, að hún snýst um meira en Suðurlandsveg. Samgönguáætlun fjallar um flugmál, flugöryggismál, hafnamál, siglingar og siglingaöryggismál og um vegamál og umferðaröryggismál. Af mörgu er að taka og þetta er mjög stórt verkefni, ekki síst vegna þess að núna í fyrsta skipti verður samgönguáætlunin lögð fyrir þingið eftir að hún hefur hlotið þá umfjöllun sem lög um umhverfismat áætlana gerir ráð fyrir. Það kallar á miklu meiri vinnu, miklu meiri undirbúningsvinnu en nokkru sinni áður hefur verið. Umhverfismatsskýrsla verður að fylgja með og það verður að vera búið að fjalla um þau verkefni sem eru fyrirsjáanleg næstu 12 árin í umhverfismatsskýrslu. Við erum að vinna með allt öðrum hætti að þessu, við erum að taka meira tillit til umhverfismála en nokkru sinni hefur verið gert áður og sennilega er Ísland fyrsta ríkið í Evrópu sem fjallar um heildstæða samgönguáætlun fyrir landið allt með umhverfismat (Forseti hringir.) unnið til fullnustu um leið. Ég bið (Forseti hringir.) hv. þingmenn að hugsa um fleira en Suðurlandsveginn.