133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

leiga aflaheimilda.

[10:56]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hlutskipti hæstv. sjávarútvegsráðherra er hálfömurlegt. Hann kemur úr byggðarlagi sem er hart leikið af kvótakerfinu í sjávarútvegi sem skilar nú helmingi minni afla en fyrir daga þess. Það hefur verið við lýði í rúm 20 ár. Í gegnum árin hefur hann vissulega gagnrýnt kerfið en rödd hans hefur verið hjáróma nema rétt fyrir kosningar, þá hefur hann byrst sig og lofað því að kerfinu yrði breytt. En eftir kosningar hefur hann jafnoft svikið það loforð og jafnvel breytt kerfinu til hins verra.

Einn daginn breyttist gagnrýnandi vonlauss fiskveiðistjórnarkerfis í sjávarútvegsráðherra lands og sjávar og þá urðu skilaboðin einfaldlega þau að kvótakerfið væri gott, um það væri sátt og nákvæmlega engu þyrfti að breyta.

Kvótakerfið er mesta óréttlætismál Íslandssögunnar. Það hefur valdið þjóðinni stórtjóni, byggðaröskun og gríðarlegri sóun verðmæta. Einn angi þessa ömurlega kerfis er afarkjör sem kvótalausir útgerðarmenn búa við. Þeir þurfa að leigja til sín réttinn til þess að fá að nýta sameign þjóðarinnar en fyrir hann þarf að greiða um 70% af verðmæti aflans nú um stundir. Verðið fyrir að leigja 1 kíló af þorski er um 180 kr. fyrir hvert kíló en meðalverð á mörkuðum er nú 270 kr./kg. Þegar búið er að greiða markaðskostnað sitja eftir um 70 kr./kg.

Ég spyr því hæstv. sjávarútvegsráðherra: Telur hann að slíkt dæmi gangi upp?

Það eru duglegir Íslendingar sem þurfa að lifa við þetta óréttlæti sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur skammtað þeim. Í vikunni sem leið fékk ég bréf frá eiginkonu kvótalauss útgerðarmanns á landsbyggðinni og tel ég mjög upplýsandi að grípa niður bréfið, með leyfi forseta:

„Eins og staðan er í dag er ekki hægt að komast af þurfi maður að leigja til sín allar heimildir. Það er bara spurning um hversu miklar eignir maður á til að veðsetja — áður en maður fer lóðrétt á hausinn. Því það gerum við öll að lokum. Kvótaleigan er svo há að rétt fiskast fyrir mannakaupi því það er jú hlutfall af aflanum. Aldrei er afgangur til kvótakaupa því olíuverð er einnig hátt. Gott má kallast að geta staðið á sléttu. Bátasjómenn eru deyjandi stétt, hvort það er með vilja gert eða ekki. (Best að þið í borginni farið að byggja undir okkur „hin kvótalausu“ blokkir því það er miklu betra að vera á kerfinu í Reykjavík en kvótalaus útgerðarmaður.)“

Svo virðist sem aðstæður þessa fólks komi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki ekki hót við og er það lýsandi dæmi um veruleikafirringu þeirra flokka. Mér finnst rétt að spyrja hæstv. ráðherra og, jú, einnig framsóknarmenn ef þeir mæta til umræðunnar, hvort þeim þyki þetta kerfi réttlætanlegt, hvort hægt sé að verja það kerfi sem þessu fólki er boðið upp á. Svar okkar í Frjálslynda flokknum er einfaldlega: Nei, það er ekki hægt að bjóða upp á þetta.

Fram kom á Alþingi í fyrrahaust að úr vösum þessara leiguliða renna gríðarlega háar upphæðir. Á síðasta fiskveiðiári var slegið á að um 10.000 milljónir rynnu úr vösum þessa fólks. Þær greiðslur renna út úr greininni. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hvert telur ráðherra að þessar tekjur af sameign þjóðarinnar renni? Hlýtur há leiga ekki að skerða hagsmuni útgerðarinnar og þess fólks sem vinnur við greinina? Svar okkar í Frjálslynda flokknum er: Jú, auðvitað gerir það það. Kerfið skerðir bæði hagsmuni útgerðarinnar til lengri tíma litið og ekki síður fólksins sem vinnur í greininni.

Kerfið þarf að breytast og það mun breytast þar sem þessi vitleysa getur ekki gengið lengur. Skuldir útgerðarinnar hafa á síðustu tíu árum margfaldast, þær hafa þrefaldast og ekki hafa tekjur útgerðarinnar aukist. Skuldirnar hafa runnið út úr greininni, það er ekki nokkur hagræðing að umræddu kerfi og ég spyr: Ætlar hæstv. sjávarútvegsráðherra að halda áfram að bjóða landsbyggðinni upp á slíkt kerfi? Það er ekki sæmandi að halda þessu áfram fyrir okkur á Alþingi, að bjóða vinnandi (Forseti hringir.) fólki upp á þessi afarkjör.