133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

leiga aflaheimilda.

[11:01]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór nokkrum orðum um þær aðgangstakmarkanir sem eru á fiskveiðistjórnarkerfi okkar. Í fiskveiðistjórnarkerfum þar sem það liggur fyrir að við erum að taka úr takmarkaðri auðlind þurfa að ríkja ákveðnar aðgangstakmarkanir. Hv. þingmaður hefur t.d. lagt til í þeim málatilbúnaði sem ég hef lesið frá hans eigin flokki að til staðar verði aðgangstakmarkanir í formi þess að menn fái einstaklingsbundin veiðileyfi. Hann leggur líka til að í stað þess að hafa einstaklingsbundið aflamarkskerfi (Gripið fram í.) verði sá réttur færður yfir í einstaklingsbundið sóknarmarkskerfi. Hv. þingmaður talar líka fyrir því þegar hann er á landsfundum síns flokks og þegar hann er að, eða a.m.k. ætti að vera að því, kynna stefnu síns flokks væri hann að tala fyrir einstaklingsbundnum rétti sem byggðist á aðgangstakmörkunum.

Ég tel mjög mikilvægt að draga þetta fram vegna þess að þetta snertir þann kjarna máls sem hv. þingmaður talaði hér um. Það er alveg rétt að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi er einstaklingsbundið aflamarkskerfi og það byggir á aðgangstakmörkunum. Þær aðgangstakmarkanir eru fyrst og fremst bundnar við kvótann.

Það er líka alveg ljóst mál að ef við værum ekki með einhverjar heimildir til framsals á aflaheimildum, hvort sem er aflamarki eða aflahlutdeildum, mundi það þrengja möguleika manna til hagræðingar til þess að draga úr tilkostnaði. Það mundi líka gera það að verkum að útgerðin yrði öll ósveigjanlegri og þetta kerfi sömuleiðis og er held ég þó flestum ljóst að það kerfi sem við búum við í dag er ekkert endilega mjög sveigjanlegt. Þetta er ekkert endilega eingöngu niðurstaða okkar Íslendinga, þetta er niðurstaða þeirra þjóða sem hafa byggt upp fiskveiðistjórnarkerfi með það fyrir augum að þar sé alvörufiskveiðistjórn, þar sé alvörusjávarútvegur. Færeyjar eru t.d. gott dæmi um það að menn hafa framsal með einhverjum hætti.

Hv. þingmaður spurði mig um réttlæti þessa framsalskerfis. Það hefur oft komið til tals að þrengja framsalið. Ef við skoðum þessi mál í einhverju samhengi blasir það við að þróunin hefur verið sú að framsalið hefur verið að þrengjast. Það hefur m.a. gerst og byggst á niðurstöðu í samningum sjómanna og útvegsmanna að framsalið hefur þrengst og það eru ýmsar takmarkanir á því, svo sem sú regla að menn verði að veiða 50% af þeim aflaheimildum sem þeir hafa. Það er líka kveðið á um það að menn geti ekki framselt yfir á báta meira en það sem talið er að þeir geti veitt og þar fram eftir götunum.

Við höfum síðan þróað og prófað ýmsar leiðir. Á sínum tíma tóku menn upp það sem kallað var kvótaþing. Það var hins vegar afar óvinsælt og menn töldu að það mundi ekki leiða til meira réttlætis, af því að hv. þingmaður spurði um það, og þá var ákveðið að falla frá því.

Varðandi aðra spurninguna, hv. þingmaður spyr mig hvert ég telji að tekjur af kvótaleigu á milli óskyldra aðila renni og hvort há leiga hljóti ekki að skerða hagsmuni útgerðar og sjómanna. Það er auðvitað ljóst mál varðandi þetta að tekjurnar af leiguframsalinu hljóta að renna til þeirra sem eru að leigja frá sér, það þarf í sjálfu sér ekkert að hafa mjög mörg orð um það.

Það sem ég held að þessi spurning hljóti þá að snúast um er hvort með óeðlilegum hætti sé verið að láta sjómenn taka þátt í kvótaleigu. Við vitum að það er bannað, bæði með lögum og samkvæmt kjarasamningum. Ég hef hins vegar haft ástæðu til að ætla að þarna vantaði talsvert mikið á eftirfylgnina, það væri ekki nægjanlega vel fylgst með því hvort það væri nægilega tryggt að sjómenn tækju ekki þátt í kvótaleigunni. Ég setti þess vegna niður nefnd í desember til að fara yfir þessi mál, skoða það sérstaklega hvort ástæða væri til þess að herða á þeim. Mér sýnist full ástæða til þess að herða á þessu, auka eftirlitið til að koma í veg fyrir að þessi háa kvótaleiga lendi með einhverjum hætti á herðum sjómanna. Vonandi líta tillögur í því sambandi dagsins ljós innan tíðar.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður mig hvort ég telji að hið háa leiguverð sem hann fór yfir í ræðu sinni áðan gangi upp. Ég skal segja bara frá mínum sjónarhóli, mér finnst þetta leiguverð vera út úr öllu korti, mér finnst það ekki vera í samhengi við aðstæður á markaði, mér finnst það ekki vera í samhengi við það að sjómönnum er bannað að taka þátt í kvótaleigunni og mér finnst þess vegna mjög undarleg verðlagning sem hefur átt sér stað á kvótaleigunni. Það er hins vegar alveg augljóst mál og það sjáum við að kvótaleigan ræðst m.a. af gengisþróuninni og stöðu útgerðanna. Þetta eru frjáls viðskipti þeirra sem kaupa og þeirra sem selja, þeirra sem leigja frá sér og þeirra sem leigja til sín. Ef það er tryggt að ekki sé með neinum óréttmætum hætti staðið að slíkum samningum á kostnaðurinn auðvitað ekki að lenda á herðum sjómanna eða starfsfólks í sjávarútvegi.

Ég ítreka að ég held að þessi umræða sé gagnleg. (Forseti hringir.) Það er hins vegar mjög mikilvægt að menn skoði hana í réttu samhengi.