133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

leiga aflaheimilda.

[11:06]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er rætt um leigu aflaheimilda. Hæstv. ráðherra talaði um að umræðan væri gagnleg en það kom ekkert fram í ræðu hans hvað hann ætlast fyrir í málunum. Það liggja fyrir sameiginlegar ályktanir frá LÍÚ og samtökum sjómanna um að það eigi að draga úr möguleikum manna til að flytja aflaheimildir á milli skipa með þessum hætti. Hæstv. ráðherra virðist ekkert vera að gera í því máli.

Hvers vegna ekki?

Ég tel að það sé vegna þess að hæstv. ráðherra er orðinn algjörlega haldinn af þessu kvótakerfi, finnst það svo fínt að það megi engu breyta. Það er jú sett niður nefnd en það hafa svo margar nefndir starfað og ekkert komið út úr því. Við stöndum alltaf frammi fyrir því sama, það er komið í veg fyrir nýliðun í greininni, nýliðar komast bara ekki að vegna þessa gríðarlega kvótaverðs, bæði á leigu aflaheimilda og sölu þeirra.

Það eru auðvitað möguleikar til að breyta þessu ef hæstv. ráðherra vill gera það. En hann heldur í eignarhaldsfyrirkomulagið eins fast og hann getur. Það er hægt að breyta þessu með þeim hætti að þeir sem eru að veiða fái aflaheimildir til sín til framtíðar með einhverjum hætti. Það er t.d. hægt að taka upp þá einföldu reglu, án þess að breyta nokkru öðru, að úthluta samkvæmt þriggja ára veiðireynslu alltaf til flotans. Þá mundu þeir sem leigja til sín aflaheimildir eignast eitt tonnið af þeim þremur sem þeir fá í hendur og þannig færðust aflaheimildirnar til þeirra sem nýta þær. Auðvitað væri þetta stýring út úr því fyrirkomulagi sem hefur búið til aukabúgrein hjá ýmsum fyrirtækjum í þessu landi, þ.e. að kaupa aflaheimildir á uppsprengdu verði og láta þá sem leigja til sín (Forseti hringir.) aflaheimildir borga brúsann.