133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

leiga aflaheimilda.

[11:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þessi umræða var boðuð um leigu veiðiheimilda og ég ætla að halda mig við þann þátt málsins fremur en að ræða fiskveiðistjórnarmál almennt.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að kvótaleiga sé miklum mun hæpnari og umdeilanlegri ráðstöfun í kerfinu en jafnvel sjálft varanlegt framsal veiðiheimilda og mætti þó ýmislegt um það mál segja. Ástæðan er einfaldlega sú að í mínum huga er veiðirétturinn afnotaréttur og það liggur í hlutarins eðli að það er afar hæpið að afnotarétt geti menn fénýtt með því að láta aðra nota hann. Ef þetta er afnotaréttur í grunninn nota menn hann annaðhvort sjálfir eða hann er ekki notaður.

Verðið er komið upp úr öllu valdi og það hefur mjög háskalegar hliðarverkanir. Það er t.d. ekki mikill hvati fyrir hendi til þess að koma með annað að landi en allra verðmætasta fiskinn ef menn þurfa að borga 170 kr. á kílóið fyrir að fá að veiða hann, nema þá að um löglegan meðafla sé að ræða. Fleira mætti nefna í þeim dúr.

Leigumöguleikinn og samþjöppun veiðiheimilda er nátengt. Þeir aðilar sem sópa að sér veiðiheimildum hafa alltaf þann örugga útveg að leigja þær frá sér ef þeir þurfa ekki á þeim öllum að halda sjálfir og láta aðra afskrifa fjárfestinguna. Þetta tvennt hangir líka saman. Ég held að það verði að fara að skoða af verulegri alvöru að taka á þessum þætti málsins og ég sé þar kannski aðallega tvær leiðir mögulegar, ósköp einfaldlega þá að hækka verulega nýtingarkvöðina, að menn verði að langmestu leyti að nýta sínar úthlutuðu veiðiheimildir eða sinn afnotarétt sjálfir, eða hins vegar, sem er skylt því sem síðasti ræðumaður var að tala um, að einhver svolítill hluti af því sem menn leigja frá sér á hverjum tíma komi ekki til varanlegrar úthlutunar til þeirra á næsta fiskveiðiári. Það verði einfaldlega aðeins skert það sem menn fá þá endurúthlutað af hlutdeild á næsta ári og (Forseti hringir.) hinn skerti hluti gangi til einhvers konar endurráðstöfunar. Í því sambandi kæmi ýmislegt til greina.