133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

leiga aflaheimilda.

[11:18]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Stjórnarliðar verða að fara að opna augun fyrir stöðu þeirra sem leigja til sín aflaheimildir. Maður hlustar á hæstv. sjávarútvegsráðherra og eins á hv. formann sjávarútvegsnefndar tala eins og þeir átti sig ekki á raunveruleika þeirra sem gera út og þurfa að leigja til sín aflaheimildir. Hæstv. ráðherra virðist alltaf horfa á málin frá sjónarhóli kvótahafanna og spurning hvort ekki sé rétt að minna hæstv. ráðherra á að hann er sjávarútvegsráðherra en ekki kvótahafaráðherra. Er þar mikill munur á.

Leigumarkaðurinn með aflaheimildir er ekki frjáls markaður, eins og hæstv. ráðherra sagði. Hæstv. ráðherra sagði: Þetta eru frjáls viðskipti milli aðila. Við hljótum að spyrja hvort hæstv. ráðherra sé algjörlega blindur á það hvað er að gerast. Leigumarkaðurinn er fákeppnismarkaður og hann er samráðsmarkaður. Í raun og veru er um nauðamarkað að ræða. Þeir sem þurfa að leigja til sín aflaheimildir hafa ekki um neitt frjálst val að ræða. Þeir eru neyddir til að beygja sig undir það verð sem kvótahöfunum hverju sinni dettur í hug að setja upp og það eru engir samningar um verð á þessum markaði. Verðið er einhliða ákveðið af hálfu kvótahafanna og þeir sem þurfa að leigja hann til sín verða að beygja sig undir það leiguverð sem hinum sem eiga eða hafa dettur í hug að setja upp.

Ég er sannfærður um að í öllum öðrum viðskiptum væri Samkeppniseftirlitið komið í þetta mál og farið að velta fyrir sér hvernig stendur á því að verðmyndun á svona miklum og stórum markaði eins og hér er um að ræða er með þeim hætti sem raun ber vitni. Það vita allir sem fylgjast með sjávarútvegi að það er ekki hægt að leigja til sín afla á því verði sem verið er að leigja til sín í dag ef fylgja á reglum sem um veiðar gilda. Ef hæstv. ráðherra fylgdi reglunum eftir mundi leiguverð lækka ef farið væri í það að fylgjast betur með hvernig gengið er um auðlindina. Ég held að hæstv. ráðherra, eins og ég sagði áðan, verði að fara að opna augun (Forseti hringir.) og ákveða að hann sé hæstv. sjávarútvegsráðherra en ekki kvótahafaráðherra.