133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

leiga aflaheimilda.

[11:22]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það var svo sem ekki við miklu að búast. Maður er búinn að heyra þessa ræðu hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra áður. Svörin voru ekki merkileg. Það er eins og honum komi þetta fólk bara ekkert við, fólkið sem þarf að leigja til sín aflaheimildir. Það er ekki neitt svigrúm til þess að gæta að hag þessa fólks en fyrir þá sem hafa yfir aflaheimildunum að ráða er alls konar sveigjanleiki. Það er hægt að leigja 50% annað hvert ár og allt hitt árið. Það er hægt að breyta þorski í einhverja aðra tegund og ég veit ekki hvað.

Svo eru menn að tala um að það séu einhverjar takmarkanir. Það eru engar takmarkanir. Það er hægt að fara í svokallaða Kínaleigu. Það er hægt að fara allar leiðir. Þeim sem hafa yfir kvótanum að ráða eru allar leiðir færar. En það þarf ekkert að kanna hvort sjómenn taki þátt í þessari kvótaleigu. Menn verða bara að líta á þær tölur sem hafa komið fram í umræðunni. 1/5 af tekjum sjávarútvegsins fer í að greiða þessa leigu, þ.e. 1/5 af tekjum botnfisksaflans. Það eru 10 milljarðar og þessir peningar fara út úr greininni. Það þarf ekkert að kanna þetta. Þetta er augljóst.

Hæstv. ráðherra ræddi að einhverju leyti um tillögu Frjálslynda flokksins. Ég get lofað honum því að við komum fram með mjög skýrar tillögur, einmitt fyrir þá aðila sem leigja til sín aflaheimildir til að fá að nýta sameiginlega auðlind. Við munum gera það fyrir næstu kosningar og hagur þeirra mun verða miklu bjartari eftir að við tökum hér við völdum ef okkur tekst það en til þess að breyta þessu kerfi þarf að hrinda þessari ríkisstjórn í burtu. Það eru hreinar línur. Fólk er búið að sjá það að loforð hæstv. ráðherra fyrir kosningar og efndir eftir kosningar fara ekki saman.