133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

leiga aflaheimilda.

[11:24]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hefur á margan hátt verið upplýsandi. Það sem mér hefur heyrst skína í gegn er mikil krafa um að þrengja verulega framsalið í kerfinu (SigurjÞ: Nei.) sem er út af fyrir sig athyglisverð skoðun vegna þess að það hefði líka önnur áhrif, m.a. á þá sem eru núna að leigja til sín, þau byggðarlög sem eru að leigja til sín o.s.frv.

Ég hef verið skammaður fyrir það í þessari umræðu að ég sé allt of handgenginn Landssambandi íslenskra útvegsmanna og sé einhver kvótamálaráðherra í stað þess að vera sjávarútvegsráðherra. Á sama tíma er ég líka gagnrýndur fyrir það að hafa ekki tekið undir tillögur frá LÍÚ um að þrengja framsalið í leiguviðskiptunum. Ástæður fyrir því að ég hef ekki viljað gera það eru ýmsar. Ég hef t.d. talið að það gæti haft neikvæð áhrif á þá sem lakar standa í sjávarútveginum, á þá sem eru t.d. háðir því að leigja til sín einhverjar aflaheimildir. Það gæti haft neikvæð áhrif á ýmis byggðarlög. En það er ljóst mál að frá sjónarhóli þeirra sem hafa mikla kvóta mundi það ekki miklu breyta þótt aukin yrði þessi veiðiskylda upp í 75%. Það er alveg ljóst mál að þeir aðilar stæðu alveg jafnkeikir eftir. Það mundi hins vegar hafa áhrif á ýmsa aðra, m.a. einstaklingsútgerðina og smábátaútgerðina. Það mundi líka draga úr aðgangsmöguleikum manna inn í þetta kerfi og er þó ljóst að þeir aðgangsmöguleikar eru ekki mjög miklir í dag. Það má hins vegar alltaf deila um hvort þetta eigi að vera 50% eða 75%. Það er einhver tala sem menn þurfa að komast niður á en ég hef verið talsmaður þess að til staðar væri heilmikil veiðiskylda vegna þess að ég hef talið það eðlilegt. Ég tel þó að menn verði a.m.k. að gæta að því þegar við ræðum einhverjar breytingar í þessu sambandi að það komi ekki niður á þeim sem síst skyldi.

Út af því sem talað hefur verið um umfang þessara leiguviðskipta vil ég aðeins segja að ég held að samkvæmt þeim tölum sem við höfum um þessi mál sé það mjög ofmetið. Þarna er verið að taka inn í geymslu, reikna tvöfalt eða þrefalt hin raunverulegu leiguviðskipti (Forseti hringir.) en þetta þarf hins vegar (Gripið fram í.) að skýra til að (Forseti hringir.) þessar upplýsingar liggi betur fyrir.