133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[11:32]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er misskilningur hjá hv. þingmanni að verið sé að reyna að leggja stein í götu þeirra byggðarlaga eða fyrirtækja sem eru að hasla sér völl með sérstökum hætti eins og við þekkjum.

Slík fyrirtæki eru t.d. starfandi í Súðavík og Tálknafirði og það liggur fyrir að fyrirtæki af þessum toga munu hasla sér völl miklu víðar. Þá kemur auðvitað upp sú staða að þetta eru bátar sem veiða umtalsverðan afla, þetta eru ekki hefðbundnar tómstundaveiðar sem menn hafa verið að stunda og hafa verið af allt annarri stærðargráðu.

Það er ekki verið að leggja stein í götu þessara fyrirtækja, þvert á móti er verið að opna þeim leið. Því þegar slík mál koma upp sem hér um ræðir getur verið um umtalsverðan afla að ræða, m.a. það sem útlendingar veiða, menn sem koma hingað til lands til að njóta þess. Ég veit að hv. þingmanni líður ekki vel þegar ég nefni það orð, útlendingar, en þegar þeir koma hingað til lands sem ferðamenn og vilja fá að njóta þess að veiða hér liggur auðvitað fyrir að þeir geta ekki tekið með sér aflann úr landi af ýmsum ástæðum. Þá liggur beinast við að menn vilji reyna að selja þennan fisk og fénýta hann. Ef ekki liggur alveg fyrir að búið sé að setja skýr lög um hvaða heimildir þessir bátar hafa, erum við að leggja stein í götu þessara útgerða og þessarar atvinnustarfsemi.

Það sem verið er að gera hér er að opna þessari atvinnustarfsemi leið, gera henni kleift að selja og fénýta þennan afla til að þessi atvinnugrein geti síðan notið góðs af þeim tekjum sem þarna eru. Þetta hefur verið framkvæmt þannig, bæði á Tálknafirði og Súðavík, að menn hafa notað byggðakvóta að hluta til í þetta sem er reyndar ágætishugmynd, vegna þess að það er mjög í anda þeirrar hugsunar að nýta byggðakvóta til að efla nýja atvinnustarfsemi. Hér er einfaldlega verið að styðja við bakið á þeirri viðleitni að geta búið sér til tekjur í nýrri atvinnugrein (Forseti hringir.) á sviði ferðaþjónustu.