133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[11:39]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Á dagskrá þingsins í dag eru tvö frumvörp til laga um breytingar á lögum nr. 116/2006, eða lögunum um stjórn fiskveiða. Ég átta mig ekki alveg á af hverju komið er með tvö frumvörp á sama degi um breytingu á sömu lögum, hvort ekki hefði verið skynsamlegra að setja þessar tvær breytingar sem um er að ræða í eitt frumvarp í stað þess að hafa þær í sitt hvoru lagafrumvarpinu.

Við þekkjum það nú í öllum stöðugleikanum í sjávarútvegi að sífellt er verið að breyta þessum lögum og maður hefur ekki lengur tölu á því hversu oft þeim er breytt á hverju einasta þingi. (Gripið fram í.) Oftast er það þannig að það er eitthvað í umhverfinu, viðskiptaumhverfinu eða lífríkinu eða einhverju slíku, sem kallar á að breyta lögunum að mati hæstv. sjávarútvegsráðherra. Því veltir maður fyrir sér þegar koma fram tvö frumvörp um breytingar á þessum lögum á sama degi hvaða vá sé fyrir dyrum.

Það frumvarp sem við fjöllum um nú er lítið og skrýtið, leyfi ég mér að segja. Hæstv. ráðherra virðist vera órótt yfir því að tómstundabátar séu notaðir í einhverjum mæli til að draga fisk úr sjó og það sé svo mikill fiskur sem dreginn sé úr sjónum með þessum hætti að koma þurfi þessum tómstundabátum inn í kvótakerfið. Því það að gera skylt að skrá bát sem bát sem veiðir í atvinnuskyni þýðir einfaldlega að verið er að koma viðkomandi bát inn í kvótakerfið.

Getur verið að kvótahöfunum sé orðið eitthvað órótt yfir því að einhverjir smábátar séu að draga bein úr sjó á því ákvæði laganna sem heimilar mönnum tómstundaveiðar til eigin nota?

Hæstv. ráðherra sagði áðan að það væri orðin mikil atvinnustarfsemi fólgin í því að túristar kæmu hingað til að draga fisk á sjóstöng, þetta væri orðinn talsvert mikill afli og því þyrfti að grípa til þeirra ráðstafana sem hér eru lagðar til. Hæstv. ráðherra gekk svo langt að segja að til að þessi atvinnugrein gæti þróast, sem við höfum séð vera að vaxa, sérstaklega á Vestfjörðum, þ.e. að túristar komi hingað til lands að renna fyrir fisk með sjóstöng, væri alveg nauðsynlegt að gera þessa breytingu.

Ég get ómögulega skilið af hverju hæstv. ráðherra þykir það nauðsynlegt, því að þeir sem stunda þessa atvinnu eða þeir sem standa fyrir þessari nýju atvinnusköpun á Vestfjörðum hafa hingað til ekki vera að kalla á það sjálfir, eftir því sem ég best veit, að þeir séu skikkaðir í kvóta til að geta haldið áfram að byggja upp atvinnugrein sína. Í dag geta þessir menn ákveðið að þeir ætli sér inn í kvóta. Það er ekkert mál fyrir menn sem eru í þessari atvinnugrein og eru í vandræðum vegna þess að svo mikill fiskur dregst á land að þeir verða að selja hann. Það er ekkert mál fyrir þá að breyta starfsemi sinni í þá veru að bátarnir séu með veiðileyfi í atvinnuskyni. Það er þá val fyrir þá en með því frumvarpi sem hæstv. ráðherra er nú að leggja fram er verið að svipta þessa aðila því vali. Það er verið að segja að allir sem stunda veiðar á þennan hátt, þó á sjóstöng sé, skuli inn í kvótakerfið. Það sé alveg stórhættulegt hversu mikill afli sé dreginn á land á þessum bátum og þess vegna þurfi að koma þeim inn í kvótakerfið.

Ég veit ekki hvort forráðamenn LÍÚ eða kvótahafar hafa áhyggjur af því að þetta sé hið nýja sóknarkerfi. Að þetta gæti þróast út í að þessir bátar, þessir rosalega öflugu bátar með fullt af sjóstöngum hangandi út af síðunni fari að veiða frjálst og óheft að það yrði til skaða fyrir kvótakerfið og lífríkið. Ég deili ekki þessari sýn hvorki með forráðamönnum LÍÚ né hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Væri ekki nær að setja ákveðnar reglur um að þeim bátum sem stunda slíka ferðamennsku sé heimilt að koma með eitthvert ákveðið magn á hverja stöng á dag í land? Eða að gera þetta á svipaðan hátt og gert er í laxveiðinni í dag, að það sé ákveðin skylda að veiða á grunnu vatni og sleppa að einhverju leyti fiski, vegna þess að þetta snýst um skemmtunina hjá erlendum ferðamönnum við að veiða fiskinn en ekki það að bera í kassavís fisk úr landi til að nota síðan heima síðar.

Með því að horfa á þetta á þennan hátt gefst mönnum tækifæri til að þróa þessa nýju atvinnustarfsemi eins og þeir vilja. Menn hafa þá þetta val. Vilja menn stunda hana með þeim hætti sem hæstv. ráðherra er að skylda þá til hér eða vilja þeir stunda hana með því að nýta ákvæðið um tómstundaveiðar?

Hversu langt á að ganga? Hvað þýðir það að útgerð eða eiganda báts sé ekki heimilt að taka við greiðslu fyrir að bátur sé notaður nema að vera með hann skráðan sem atvinnubát?

Maður veltir þessu fyrir sér af því að ég á lítinn tómstundabát sjálfur sem ég hef gaman af að renna á út í Faxaflóa og ná mér í örfá kíló af fiski sem ég borða sjálfur. Ef ég tek kunningja mína með mér og þeir draga fisk til eigin nota af mínum bát og taka síðan þátt í olíukostnaði, þýðir það að ég sé farinn að taka fjármuni af þriðja aðila fyrir að fá að nýta bátinn til fiskveiða? Þýðir það að ég þyrfti í því tilviki að gerast kvótamaður og skrá bátinn sem atvinnutæki og leigja aflaheimildir til að kunningjar gætu fengið að koma með á sjó á góðum degi og draga sér nokkur kíló af ýsu úr sjó? Eða að þeir megi alls ekki leggja sitt til olíukostnaðar við ferðina? Hversu langt ætlar hæstv. ráðherra að ganga í þessu skyni? Eins og frumvarpið er lagt upp sýnist mér að algjört bann sé lagt við því að fiskur sé dreginn úr sjó og einhverjir fjármunir komi til bátsins í staðinn og því verður hæstv. ráðherra að svara hversu langt hann ætlar að ganga.

Í 1. gr. segir að ráðherra geti með reglugerð sett sérstakar reglur um veiðar og afla, m.a. hvað varðar skyldur skipstjóra, tilkynningar og skýrsluskil. Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að þegar ég las í gegnum athugasemdir við frumvarpið áttaði ég mig ekki alveg á af hverju er orðin þörf á að setja sérstakar reglur um veiðar og afla ef þetta á að falla inn í kvótakerfið og sérstakar reglur hvað varðar skyldur skipstjóra, tilkynningar og skýrsluskil. Annaðhvort eru menn skipstjórar á bát og báturinn stundar veiðar í atvinnuskyni og fellur þá undir þær reglur sem gilda í dag, eða menn eru það ekki. Er verið að búa þarna til eitthvert millistig á einhvers konar semi-atvinnuskipstjóra? Eða hvað gengur ráðherranum til með því að vilja hafa heimild til að setja reglugerð þar sem einhverjar sérstakar reglur eru settar um þessar veiðar sem í næstu málsgrein lagagreinarinnar er gert ráð fyrir að falli undir allar almennar reglur sem um þetta gilda?

Þetta hlýtur líka að þýða að bátar sem hafa verið úreltir, svokallaðir úreldingarbátar sem notaðir eru víða sem tómstundabátar og jafnvel getur verið að slíkir bátar séu notaðir í dag til að fara út með erlenda ferðamenn sem stunda sjóstöng, séu algerlega teknir til hliðar því það er óheimilt að skrá úreldingarbáta til veiða í atvinnuskyni og þeir geta ekki leigt til sín kvóta eða keypt til sín kvóta.

Ráðherranum er kannski kunnugt um hvort einhverjir slíkir bátar eru umferð í þessari ferðamennsku eða veiðum erlendra ferðamanna og þætti mér vænt um ef hann gæti upplýst okkur um það.

Við í sjávarútvegsnefnd eigum að sjálfsögðu eftir að fara yfir málið og ég held að þar sé fullt af spurningum sem þarf að svara. Í fljótu bragði sýnist mér þegar maður les í gegnum frumvarpið að það sé lagt fram vegna þess að einhverjum er órótt yfir því að það sé að myndast einhver ný gloppa eða glufa í fiskveiðum Íslendinga og að menn geti farið í gegnum þá glufu og veitt verulegt magn.

Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti svarað því hvort það sé ástæðan. Er ástæðan sú að menn óttist að þarna sé glufa eða fleygur í kvótakerfinu sem óprúttnir aðilar mundu fara að nýta til að veiða í stórum stíl?

Þessu skylt að litlu leyti en þó ekki alveg er að finna í 6. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Þar er talað um að heimilt sé án sérstaks leyfis að stunda fiskveiðar í tómstundum til eigin neyslu, það má stunda þessar veiðar með handfærum án þess að vera með sjálfvirknibúnað eða rafmagn og eingöngu nota þennan afla til eigin nota.

Það hlýtur að þýða, ef menn eru komnir inn í þetta almenna kerfi, að þeir fari þá að veiða eins og hver annar á milli þess sem þeir leigja báta sína fyrir sjóstöng, því það þekkja allir sem eiga báta að það er talsvert dýrara að vera með bát skráðan í atvinnuleyfi en í tómstund. Þeir sem það þurfa að gera, verði frumvarpið að lögum, verða þá að fá eitthvað fyrir bátana að gera á milli þess sem verið er að nota þá til veiða með sjóstöng. Það þýðir væntanlega aukna ásókn í leigukvóta og þá gleðjast að sjálfsögðu kvótahafarnir sem hafa hingað til getað sett upp verð. Þeir munu ekki þurfa að óttast að það verði ekki einhverjir viðskiptavinir sem geti leigt af þeim kvóta, því að þeim mun fjölga með þessu frumvarpi, verði það að lögum.

Í 6. gr. er heimild til ráðherra að ákveða árlega að á tilteknum fjölda opinberra sjóstangaveiðimóta teljist afli ekki til aflamarks eða krókaaflamarks og veiðidagar ekki til sóknardaga, meðan það kerfi var, enda sé aflinn einungis fénýttur til að standa straum af kostnaði við mótshaldið. Þetta þýðir einfaldlega að þeir sem stunda sjóstangaveiði sem sport á Íslandi og skipuleggja þessi mót, mega samkvæmt þessari grein selja aflann sem kemur í bátana á sjóstangaveiðimóti til að standa straum af kostnaði við mótshaldið.

Hvað er í sjálfu sér öðruvísi við það að bátar sem stunda veiðar í atvinnuskyni og eru notaðir í þessa sjóstangaveiði fái að veiða án þess að kvóti komi á móti?

Gott væri ef hæstv. ráðherra gæti útskýrt fyrir mér hver sé munurinn á þessu tvennu þó að ég viti að sjóstangaveiðimótin eru sport. En fyrir þá sem eiga bátana og fyrir þá sem leggja til bátana, þetta eru atvinnutæki og bátarnir eru notaðir sem slíkir, þá kemur þetta endurgjald fyrir og leyft er að selja aflann án þess að kvóti hafi komið á móti.

Ég ætla ekki að eyða lengri tíma í þetta mál núna því að við förum yfir það í sjávarútvegsnefnd. Eins og ég sagði í upphafi finnst mér frumvarpið bæði lítið og skrýtið. Ég held að það sé engin önnur skýring á því af hverju hæstv. ráðherra er svona órótt en að vá sé fyrir dyrum og að kvótaeigendur óttist að þetta muni verða notað sem smuga til að brjótast bakdyramegin í veiðar, en ég trúi því ekki að þeir sem skoða þetta í alvöru óttist slíkt.

Það verður alltaf að hafa í huga þegar frumvörp eru lögð fram og breyta á lögum hvaða áhrif það hefur á þá sem stunda nýsköpun og nýjar atvinnugreinar eins og verið er að gera á Vestfjörðum í dag og virðist ganga mjög vel. Ég er sannfærður um að það sem hér er verið að gera er íþyngjandi fyrir þessi fyrirtæki. Það er ekki, eins og hæstv. ráðherra gaf í skyn, verið að gera þeim lífið auðveldara með þessum lögum heldur hljóta þau að verða íþyngjandi.