133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[12:06]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta mál er ekki stórt í sniðum en það er afar athyglisvert. Það er hárrétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði, það kunna að opnast ýmsar glufur verði málið samþykkt, sem ég vona að alls ekki verði.

Ég sé það t.d. í hendi mér, sérstaklega ef menn ætla að setja einhverjar hliðarreglur og alls konar öðruvísi reglur í kringum þetta, að þá komi upp alveg nýr ferðamannaiðnaður sem gæti heitið „ráðinn ferðamaður á atvinnubát í sportveiðum“. Hann fengi að dvelja í svona þrjár vikur um borð og þar með væru menn komnir með alveg sérstakar reglur við útfærsluna á þessu — og gengur nú hæstv. ráðherra, vinur minn, í salinn.

Ef mönnum tekst að þróa þetta, að ráða ferðamenn til að vera á bátum þegar farið verður að veiða eftir þessari reglu, þá spyr ég: Hefur hæstv. ráðherra hugsað sér að þróa þessa aðferð á öðrum vígstöðvum, t.d. við lundaveiðar? Að ráða þar sérstaklega erlenda ferðamenn til að fara með í hópa svo menn geti sett þær inn í eitthvert kerfi? (JÁ: Þá þurfa menn ekki veiðikort.) Ég er ekki að tala um veiðikort, það eru bara mannleg mistök og ekki hægt að skamma hæstv. ráðherra fyrir það. Það sem ég er einfaldlega að segja með þessum orðum, sem eru í svolitlu gríni sögð en þó í fullri alvöru, að við megum ekki þróa þessar reglur þannig að við vitum ekki hvar við ætlum að enda með þær. Við megum ekki lenda inn í einhverju ferli með þessar nýju atvinnugreinar sem menn eru að þróa í ferðamannaþjónustu í tómstundaveiðum eða hálfgerðum sportveiðum sem ferðamenn hafa sótt í, eins og það sem kallað hefur verið á Vestfjörðum „fjordfishing“ eða annan slíkan veiðiskap sem við stundum hér á landi vegna þess að ef menn fara af stað með þetta hygg ég að huga þurfi að ýmsum reglum sem snúa að réttarstöðu fólks og hvernig standa skal að því.

Ég er viss um að um leið og menn gera það sem hér er verið að leggja til, þó að því sé haldið fram að þetta geti orðið til þess að menn eigi auðveldara með að fara í þessa starfsemi vegna þess að þeir geti farið að taka til sín aflaheimildir úr kerfunum, þá kemur náttúrlega leiguverðið og söluverðið á kvótanum strax inn í þann reikning. Halda menn að mikill áhugi verði á því innan mjög skamms tíma þegar verðgildið á kvótanum, eins vitlaust og það er orðið, er komið inn í þessa atvinnustarfsemi og menn eiga að fara að borga fyrir það í gegnum veiðileyfin?

Ég hef aðeins séð hvernig þetta hefur verið að gera sig vestur á fjörðum. Það er mjög áhugavert eins og t.d. í Súðavík þar sem leigðir eru út litlir bátar, þetta er nánast eins og bílaleiga, menn leigja bátinn án skipstjóra, fara til fiskveiða með sjóstöng og koma með aflann að landi og hafa síðan sérstaka aðstöðu til að flaka aflann eða hantera hann fyrir sig og sína. Ég hef litið svo á að hægt væri að þróa þann þátt miklu meira, t.d. að byggja upp betri aðstöðu fyrir ferðamenn sem koma til landsins og veiða svolítið af fiski og hantera hann, kenna þeim að fara betur með hann og nýta hann. Ég tel þetta vera ákveðna kynningarstarfsemi. Það mætti líka kenna þeim ákveðnar verkunaraðferðir sem þeir kunna ekki í dag, eins og að flaka fisk og þurrka hann síðan í harðfisk fyrir þá á tiltölulega stuttum tíma og þeir gætu tekið hann með sér sem slíkan að hluta, ef þeir vilja. Þannig gætum við smátt og smátt kynnt aldagamla verkunaraðferð sem mönnum hefur kannski ekkert endilega verið ljós í öðrum löndum en er þó samt sem áður víða þekkt í hinum eldri veiðisamfélögum Norður-Skandinavíu hvað þetta varðar.

Ég lít ekki svo á, hæstv. forseti, eins og ég held að hæstv. ráðherra hafi orðað það áðan, að með því fyrirkomulagi sem hér er verið að leggja til hefðu útlendingar vaxandi skemmtun af því að stunda fiskveiðar. Ég held að um leið og menn geri þetta komi kvótaverðið inn í, það verður ekki hjá því komist. Þetta verður til að hefta þá starfsemi sem hefur verið að þróast og ég lít svo á að þessi nýja atvinnustarfsemi eigi að fá að þróast áfram frjálst og óháð þeim kvótareglum sem við höfum verið með. Hæstv. ráðherra benti á að sveitarfélögin gætu m.a. notað byggðakvóta í þessu sambandi. Þá kemur auðvitað upp krafan um að byggðirnar fái nánast allar byggðakvóta, því að þær hljóta að eiga að sitja við sama borð í þróun nýrra atvinnugreina. Varla á að hafa það misjafnt, varla á það að tengjast því að menn hafi misst kvóta úr byggð á undanförnum árum að þeir geti ekki fengið að þróa nýjar atvinnugreinar. Menn mega ekki hengja þetta í það, ég held að menn hljóti að átta sig á því þegar þeir setja það í slíkt samhengi.

Að mínu viti getum við ekki sett svona höft á þessa atvinnugrein eins og hér er lagt til. Ég tel varhugavert að fara þá leið og þetta eigi að fá að þróast áfram og menn eigi að finna þessu þann farveg sem áhugaverðastur er. Við getum ekki stefnt þessu í það að verðlag á nýtingu þessarar atvinnustarfsemi fari úr böndunum með því að tengjast kvótakerfinu og verði þar af leiðandi mikil höft á framþróun þessarar greinar. Ég dreg mjög í efa að útlendingar hafi af því meiri skemmtun þó að verðið á þessum veiðiheimildum fari upp í samræmi við veiðiheimildir í kvótakerfinu. Ég held að það gerist ekki.

Ég tel að það geti verið mikil landkynning af þessu, m.a. af því að kenna fólki að verka þann fisk sem það vill taka með sér úr landi. Meginreglan hefur hingað til verið sú að menn mættu taka með sér þann fisk sem þeir veiddu án þess að um vélvæddar veiðar væri að ræða, með handvirkum búnaði, sjóstöng eða þess vegna handfærarúllum með gamla laginu. Reyndar tel ég að þær reglur hafi verið of takmarkaðar og fæ ekki séð hvers vegna menn megi t.d. ekki veiða skarkola í net ef þeir hafa sérstakan áhuga á að veiða skarkola í soðið. Hákarl er ekki í kvóta sem betur fer og háfurinn ekki heldur enn þá og ekki lóskatan. Það eru örfáar virðulegar fisktegundir sem ekki hafa ratað inn í kvótakerfið, sennilega fyrir einhver mistök. (Gripið fram í: Það má ekki leggja línu …) Það má leggja línu fyrir allar tegundir sem ekki eru inni í kvótakerfinu. (Gripið fram í.) Þetta veit hv. þingmaður mætavel, ég þarf nú ekki að uppfræða hv. þm. Jóhann Ársælsson um það eða telur hæstv. forseti að ég þurfi að halda fyrirlestur um þetta? (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Um leið og við förum þá leið sem hér er verið að leggja til, að gera þetta að atvinnustarfsemi sem tengist kvótakerfinu, erum við komin í ákveðið far sem ég held að ekki verði aftur snúið með. Þá kemur að sjálfsögðu upp krafa um að settir verði skipstjórar með vélavarðarréttindi um borð í þessa báta og þá er þetta orðið eins konar hluti af kvótakerfinu. Það verður mjög margt sem þarf að athuga, ég tel t.d. að atvinnuveiðar innan kvótakerfisins geti ekki verið undanþegnar skýrslugjöf. Menn verða að staldra aðeins við í þessu.

Við skulum leyfa okkur það, hæstv. sjávarútvegsráðherra, þrátt fyrir kröfu LÍÚ um að allar hugsanlegar fisktegundir lendi í kvótakerfinu og öll hugsanleg atvinnustarfsemi sem tengist fiskveiðum með einhverjum hætti fari inn í kvótakerfið sem þeir ætla að eiga í framtíðinni sem sína einkaeign, að hafa eitthvað utan við það og leyfa nýrri atvinnustarfsemi og nýrri hugsun að þróast án þess að það eigi heima inni í hinu hefðbundna kvótakerfi eða veiðikerfi smábátanna.

Ég tel að hugsunin í þessu eigi að vera sú að þeir sem veiða þennan afla megi nýta hann til eigin nota eins og verið hefur og að erlendir ferðamenn sem stunda veiðar á slíkum bátum megi taka með sér aflann, bæði heim til sín eða þeirra dvalarstaða sem þeir dvelja á hér á landi, því að þeir dvelja yfirleitt í tvær vikur við þessar veiðar, þeir eyða í þetta hluta af sínu sumarfríi og þetta er yfirleitt sérstakt áhugamál þess fólks sem kemur til þessara veiða. Það er ekki spurning að þessari nýju atvinnustarfsemi fylgir mikil landkynning og í rauninni mikil kynning á því hvernig við stundum sjávarútveg. Við megum ekki setja þessu of stíf höft, við eigum að leyfa þessu að þróast. Þetta er jákvæður þáttur í því að fólk skilji hversu miklu það skiptir okkur Íslendinga að nýta lífríkið á réttan hátt, þar með talið hvali og önnur dýr. Við megum því ekki setja þessu of mikil höft. Við eigum hins vegar að nota okkur þetta til þess að fólk átti sig á að þjóðin hefur lifað á sjávarútvegi um aldir og þó að nýjar atvinnugreinar hasli sér völl og sjávarútvegurinn sé þar af leiðandi með minni hlutfallsleg verðmæti í útflutningstekjunum en áður sé sjávarútvegurinn samt sem áður geysilega mikilvæg undirstaða byggðar í landinu.

Við tókum um það örlítið til umræðu áðan í tengslum við leigu á aflaheimildum hvaða áhrif kvótakerfið hefði haft á byggðirnar. Ég ætla ekki að blanda því sérstaklega inn í þessa umræðu vegna þess að ég lít svo á að það sem við erum að ræða hér sé í raun og veru framtíð nýrrar atvinnugreinar, nýrrar atvinnusköpunar, sem vissulega tengist því að taka eitthvað úr lífríki sjávar en það er nú svo að þar étur hver annan og það nær alveg frá hinum smæsta titti og upp í 40, 50 tonna langreiði. Við þurfum ekki að hafa sömu áhyggjur og LÍÚ-handhafarnir að aflaheimildum, að allt sem tekið er úr sjónum sé tekið af tittunum þeirra. Það er ekki svo. Það er engin ástæða til að sameinast þeim í grátkórnum um að einkaréttur þeirra sé þá ekki alveg í hendi ef slík atvinnustarfsemi fái að þróast sem við erum að ræða hér.

Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti, og ég mælist til þess að menn fari mjög varlega í að setja þessi höft á þróun nýrrar atvinnugreinar. Þar hafa engin slík slys orðið og ég sé ekki fyrir mér að þau verði í þessari atvinnugrein þó að hún fái að þróast dálítið frjálst á næstu árum. Það verður nægur tími til að setja henni stífari reglur síðar. Ég tek vissulega undir það að þetta er hluti af atvinnustarfsemi sem heyrir að stórum hluta undir ferðamál og kemur örlítið inn í nýtingu á heildaraflaheimildum en hefur engin teljandi áhrif á það hvernig uppbygging fiskstofna tekst til hér á landi ef miðað er við þær stjóstangaveiðar sem hingað til hafa verið stundaðar.

Fiskur sem bítur á krók gerir það vegna þess að hann er að leita að æti. Því hefur oft verið haldið fram varðandi líffræðilega nýtingu fiskstofna að það skipti verulegu máli hvort menn veiddu fisk með veiðarfærum sem hann tekur vegna þess að hann sé að leita sér að æti og leiti þar af leiðandi á mið þar sem hann tekur viðbót úr lífríkinu sér til viðurværis eða hvort menn veiddu fisk sem væri fullur af æti og væri ekki sérstaklega að leita eftir að nýta sér næsta einstakling. Afránið er auðvitað þekkt í þorskstofninum, menn vita að sá stærri étur þann minni og koll af kolli og oft hafa fiskimenn séð tveggja, þriggja kílóa fisk inni í þeim stærstu og jafnvel annan minni inni í þeim þegar að er gáð o.s.frv. Lífríkið sjálft er auðvitað stærsti afræninginn á fiskstofnana, það er staðreynd. Menn geta alveg reiknað það út að það sem við veiðum er brot af því sem þorskstofninn étur af sjálfum sér. Menn geta sett upp það einfalda reikningsdæmi með því að reikna út hvað 800 þús. tonna veiðistofn étur af sjálfum sér ef hann æti aðeins einn fisk sem væri hálft kíló á hverjum degi sér til viðurværis. Menn ættu að reikna það út og vita hvað þeir fengju út úr því. Það hleypur á stórum tölum, stærri tölum en við veiðum.

Að mínu viti er ýmislegt í allri umræðunni um kvótakerfið og nýtingu lífríkisins á misskilningi byggt og þess vegna hef ég tekið heils hugar undir þá stefnu sem sjávarútvegsráðherra hefur haft um að við eigum að nýta lífríkið allt, sjávarspendýr sem annað, vegna þess að það er hluti af þeirri keðju sem við erum að reyna að vinna í og vinna með en ráðum tiltölulega litlu um. Hins vegar er ekki ástæða til að auka á ójafnvægið þar með því að nýta ekki úr keðjunni það sem eðlilegt er að taka með líffræðilegum forsendum. Þar er ég á algjörlega öndverðum meiði við svokallaða umhverfissinna sem virðast alls ekki skilja þessa umræðu. Menn geta talið grös og fjólur en þegar á að reyna að reikna út sjávarlífríkið þá er eins og allt standi í hinum fróðustu mönnum. Það er bara svoleiðis. Þetta veit ég að sjávarútvegsráðherra veit jafn vel og ég.

Þetta eru varnaðarorð til hæstv. sjávarútvegsráðherra um að fara varlega vegna þess að ég vil sjá þann vaxtarbrodd þróast óhindrað sem hefur verið að þróast í þessum veiðum og að menn finni þennan farveg. Ég hvet til þess að samhliða þessum veiðum og nýtingu aflans fari fram aukin kynning á íslenskum sjávarútvegi, fólki verði kennt að nýta aflann eins og hann kemur að landi, fólki verði kennt að nýta allar afurðir fisksins, ekki bara flökin heldur fleira, og fólk fái skilning á því að það eru verðmæti í öllum fiskinum. Þetta gæti hjálpað okkur mikið í rökræðunni almennt í nágrannalöndum okkar um það hvernig nýta eigi lífríkið og hvernig eðlilegt sé að nýta það, hæstv. forseti.