133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[12:48]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi lundaveiðina, hvort það væri meira spennandi að setja hana í kvóta, get ég upplýst hv. þm. Sigurjón Þórðarson um það að lundaveiðin er á sóknardögum frá 1. júlí til 15. ágúst (Gripið fram í.) þannig að þá veiðir maður alveg eins og maður getur. Stofninn er mjög stór svo að ekki þurfum við að hafa áhyggjur af honum. Það eru um 6 milljónir lunda í Vestmannaeyjum.

Þetta kerfi er orðið viðurkennt á heimsvísu og margir dást að okkur fyrir að hafa stjórn á fiskveiðunum, það er alveg ljóst — (Gripið fram í.) talandi um Vestmannaeyjar — að Eyjamönnum vegnar vel. Þeir hafa starfað lengi í þessu kerfi og það er það mikið að gerast núna hjá okkur að það er að fjölga töluvert í flotanum. Þrjú eða fjögur skip eru í smíðum erlendis þannig að það er töluverð fjölgun frá því sem verið hefur.

Ég hef mikla trú á því að við eigum að festa þetta kerfi í sessi og taka á öllum málum. Þetta er dæmigert mál sem var ágreiningur um og ekkert óeðlilegt en við munum taka umræðu um það í nefndinni.

Ég veit að hv. þm. Jóhann Ársælsson mun hjálpa mér að koma þessu máli í gegn með því að mæta alltaf á fundi eins og hann hefur gert og halda fundi hvenær sem við þurfum.