133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[12:49]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður hefði skoðað þetta mál vel vegna þess að hann er þegar tekinn að mæla mjög fyrir því áður en það er tekið til skoðunar í nefndinni, þ.e. hvort hann hafi t.d. velt því fyrir sér hvort það muni breyta einhverju hjá þeim sem verða skyldaðir til að fara inn í kvótafyrirkomulagið. Nú er það þannig að sjómenn mega taka í soðið í túrnum sínum. Ég veit að á frystitogurunum taka menn gjarnan með sér einn kassa af flökum í land. Gæti það ekki verið þannig að menn tækju með sér í land í soðið eins og þeir hafa áður gert, það sem þeir geta notað til eigin neyslu, þannig að þetta mundi þá ekki breyta að því leyti til miklu?

Það mun þó breyta því að viðkomandi aðili verður að fara með bátinn sinn inn í kerfið og borga allt sem því viðkemur, fara undir allar reglurnar sem eru í gangi, skila veiðiskýrslum o.s.frv. Þannig er verið að leggja hömlur á viðkomandi starfsemi, jafnvel þótt hún breytist ekki að öllu leyti.

Ég held líka — ja, ég vil svara því sem hv. þingmaður spurði um, hvort ég muni ekki vinna að málinu í nefndinni. Jú, jú, auðvitað mun ég mæta á fundi nefndarinnar og taka þátt í að afgreiða mál en það er athyglisvert að hv. þingmaður er með þessu að draga athyglina að því að hann telur enga ástæðu til að afgreiða þau mál sem liggja fyrir nefndinni núna. Ég fagna því auðvitað að sjá að hann hafi séð að þau ættu ekki öll erindi í gegnum þetta þing.