133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[13:41]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Málið sem við höfum rætt um í morgun er um það hvort setja eigi sérstök höft á nýja atvinnugrein, þá atvinnugrein sem margir hafa bundið vonir við, þ.e. að leyfa takmarkaðar fiskveiðar við land í verkefni sem hefur verið kallað fjarðaveiðar. Staðið hefur til að fá sérstaklega erlenda túrista til að koma hingað til veiða á minni skipum. Þetta hefur verið skipulagt sem átaksverkefni frá nokkrum byggðum, m.a. á Vestfjörðum og auðvitað hafa fleiri byggðir haft hug á því að koma inn í verkefnið.

Nú er verið að leggja það sérstaklega til að sá afli sem kemur á slík skip tilheyri kvótakerfinu og menn þurfi að fá aflaheimildir fyrir því. Ég vakti athygli á því í morgun, hæstv. forseti, að ég teldi óeðlilegt að setja þessi höft á þróun hinnar nýju atvinnugreinar sem yrði henni ekki til framdráttar.

Ég vil í lokaræðu minni spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra beinnar spurningar um það: Hvaðan er krafan komin um að svo verði gert sem hér er lagt til? Er hún komin frá LÍÚ, Samtökum ferðaþjónustunnar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga eða hvaðan er hún komin? Er þetta alfarið hugmyndasmíð fólks í sjávarútvegsráðuneytinu að leggja þetta til?

Ég tel sem sagt að hér sé því miður verið að vega að nýrri atvinnugrein og setja hana í ákveðin höft og bönd sem munu leiða til þess að kvótaverðið og kvótaleigan, sem við ræddum í morgun, muni fara beint í þessa atvinnugrein og hefta hana. Ég hef ekki trú á að erlendir ferðamenn hafi sérstakan áhuga á því að fara að leggja út fyrir leigu og kvótaverði í íslenskum sjávarútvegi. En það hlýtur að verða svo ef menn ætla að gera þetta út með einhverjum hagnaði og hafa einhvern arð af þeirri atvinnustarfsemi, að þá verða menn að fara með kostnaðinn út í gjaldtökuna á ferðamönnunum sem í þetta sækja ef á að vera hægt að reka þetta.

Ég vara þess vegna mjög við því, hæstv. forseti, að umrædd leið verði farin. Nóg er nú samt í kvótakerfinu þar sem búið er að tína inn nánast hverja einustu fisktegund í kvótakerfið og varla hefur útbreiðsla fisktegunda með hlýnandi sjó hér við land haft við að verða vaxandi afli án þess að rokið væri til og fisktegundin sett í kvótakerfið. Má þar nefna skötuselinn sem veiddist eingöngu við suðurströndina fyrir örfáum árum en veiðist nú vítt og breitt við strendur landsins eftir að sjór hlýnaði.

Hæstv. forseti. Engin ástæða er til þess að mínu viti, líffræðileg eða efnahagsleg, að setja atvinnugreininni sérstök höft með því móti sem hér er verið að leggja til. Ég tel að það muni ekki auka ferðamannastrauminn og ég tel að það muni ekki auka atvinnusköpun í kringum þennan iðnað að gera þetta á þennan hátt. Ég tel að hér sé rangt að staðið að fara þá leið og beinlínis er verið að leggja stein í götu þróunar atvinnugreinarinnar. Menn frá fjöldamörgum byggðum hafa hugleitt hvort hægt væri að stofna til slíks atvinnurekstrar í byggðarlögum sínum og hafa auðvitað horft til þess að veiðar á sjóstöng hafa hingað til ekki verið taldar kvótaskyldar og fólki hefur verið heimilt að nýta þann afla sem það veiðir sér til framfærslu, þ.e. fólk hefur mátt nýta aflann fyrir sig, vini sína og ættingja. Fólk hefur líka mátt láta verka fyrir sig fiskinn eða verkað hann sjálft og gengið þannig frá honum að hann sé flutningshæfur frystur eða í öðru formi til að taka hann með sér erlendis þegar um erlenda ferðamenn er að ræða.

Ég tel að með því að fara þá leið sem lögð er til í frumvarpinu munum við setja af stað þróun sem við sjáum alls ekki fyrir endann á. Ég held að það væri mjög æskilegt ef greinin fengi að þróast áfram eins og hún hefur verið að þróast á undanförnum tveimur árum, ætli það sé mikið meira síðan þetta fór að verða mjög bitastæður þáttur í byggðum eins og Súðavík og Tálknafirði, svo dæmi sé tekið.

Ég vil einnig vekja athygli á því, hæstv. forseti, að sumir bátar sem gerðir eru út til hvalaskoðunar hafa líka leyft gestum sínum að stunda takmarkaðar sjóstangaveiðar í hvalaskoðunarferðum. Útsýnisferðir til sjós hafa ekki verið tengdar kvótakerfinu hingað til með neinum hætti en þarna væri verið að tengja þær að hluta til í kvótakerfið. Þeir bátar sem hingað til hafa fyrst og fremst verið ferðamannabátar og útsýnisbátar, þó að einhvers staðar hafi verið stungið niður sjóstöng í hluta ferðarinnar, hafa ekki tilheyrt neinu sem heitir kvótakerfi eða takmörkunarkerfi eins og við þekkjum það í sjávarútveginum. Þess vegna held ég að mjög varhugavert sé að fara umrædda leið.

Ég hvet til þess að málið verði skoðað miklu nánar. Rætt verði við samtök í ferðaþjónustu og einnig þá sem hafa verið að gera út svokallaða útsýnisbáta til hvalaskoðunar eins og víða hefur verið. Við Vestmannaeyjar eru t.d. útsýnisferðir með björgum. Sama á við um Vestfirði þar sem ferðamannabátar hafa siglt og mönnum hefur ekki verið meinað að stinga niður sjóstöng. Það er afar vandasamt að draga þá línu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlar að draga um hvenær sjóstöng er atvinnutæki og hvenær hún er það ekki. Ég hvet til þess, hæstv. forseti, og beini þeim orðum alveg sérstaklega til hæstv. sjávarútvegsráðherra og formanns sjávarútvegsnefndar, að menn staldri verulega við og skoði málið af mikilli kostgæfni vegna þess að það þjónar ekki tilgangi að setja höft á atvinnugrein sem er í þróun.

Hver voru helstu rökin fyrir því að setja fiskveiðar í kvótakerfið? Þau voru að byggja upp fiskstofnana. Það hefur ekki tekist. Þau voru að efla trausta atvinnu og byggð í landinu. Það hefur ekki tekist. Menn hljóta væntanlega að geta verið sammála um að þar er mikil brotalöm á. Samkeppnin hefur verið mikil í kerfinu. Kvótar safnast á fáar hendur og arðsamasti eigandi fiskveiðiauðlindarinnar — hver er arðsamastur fyrir þá sem eiga fiskveiðiauðlindina og hafa hana á sinni hendi? Leiguliðinn. Leiguliðinn sem greiðir 160–180 kr. fyrir hvert einasta kíló áður en hann fer á sjó. Hann er arðsamasti aðilinn fyrir þá sem aflaheimildirnar hafa og fyrir þá sem hafa veð í aflaheimildunum, bankanum. Á þessu vildi ég vekja athygli og ég tel að þetta geti staðið atvinnugreininni mjög fyrir þrifum og að ekki sé rétt að fara þessa leið.

Svo er spurning út af fyrir sig sem ég ætla ekki að ræða sérstaklega um undir þessu atriði, hún er sú hvort allar þær fisktegundir sem við höfum verið að hamast við að tína í kvótakerfið eigi þar heima. Ég tel svo alls ekki vera. Það hefur verið algjört ofstjórnaræði og nánast verið farið að kröfu LÍÚ að pína hverja einustu tegund í kvótakerfið svo hún geti orðið að veðsetningu í bönkum landsins og lánastofnunum. Það er grunnurinn að því að alltaf er verið að reyna að fjölga fisktegundum í kvótakerfinu, að auka veðhæfnina. Hvert hefur það leitt okkur? Í hátt í 300 milljarða kr. skuld í sjávarútveginum þegar tekjurnar hafa nánast ekkert breyst, rokkað á 110–130 milljörðum á hverju einasta ári, þ.e. heildarútflutningstekjur sjávarútvegsins.

Nú er því kominn tími til að menn staldri við og haldi ekki því feigðarplani áfram sem hér er verið að leggja upp með. Ég skora á hæstv. ráðherra að endurskoða tillöguflutninginn (Gripið fram í.) og fara varlega í þá vegferð.