133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[14:09]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hugmyndin með þessu frumvarpi að takmarka það hvað einstakur ferðamaður getur veitt. Ef hann er duglegur að veiða, er fiskinn og kann þetta allt saman og er heppinn þá getur hann auðvitað veitt meira en í einhverju öðru tilviki.

Mér finnst ekki eðlilegt að vera að kvótasetja þetta svona niður á einstaka kalla eða einstakt veiðarfæri. Þess vegna er miklu eðlilegra að reyna að nálgast þetta svona, að mínu mati a.m.k. Það er einfaldlega þannig að eins og við vitum þá gilda hjá flugfélögunum ákveðnar reglur um hámarksþyngd sem menn mega fara með með sér og ég veit að það er það sem hefur verið að stoppa það af hvað erlendir ferðamenn hafa tekið með sér af fiski, ég held að það séu 20 kg af flökum sem þeir hafa verið að fara með með sér og það hefur þá takmarkast af því og síðan eru til ýmsar sögur um það.

Varðandi það hvort farsvið umræddra báta verði takmarkað þá er kveðið á um slíkt í öðrum lögum. Ef ég man þetta rétt þá er gert ráð fyrir því í þeirri reglugerð sem var gefin út varðandi réttindi þeirra manna sem veiða á þessum bátum, þá er farsvið þeirra takmarkað, þannig að ég veit ekki til þess að neinar breytingar standi fyrir dyrum með það.

Varðandi jafnræðisregluna þá er það auðvitað þannig að þetta er alveg óháð því á hvaða bát menn róa, það ræðst ekkert af því. Málið snýst um það þegar menn fara að fénýta aflann, fara að búa sér til verðmæti úr honum með því að selja hann, hvort sem aflans hefur verið aflað á bát sem menn eiga sjálfir eða á bát sem þeir eiga ekki, það er einfaldlega þannig að þá verða til tekjur og þá fara menn að lúta sömu reglum og útgerðarmenn, hvort sem það væru útgerðarmenn stórs báts að smábáts, hvort sem menn væru sjómenn á litlum bát eða á stórum bát. Skilin eru bara dregin um þetta alveg eins og er í gildandi lögum. (Gripið fram í.) Þetta snýst bara um það að annaðhvort eru menn á tómstundaveiðum eða menn eru ekki á tómstundaveiðum og ef menn fara að fénýta aflann þá gilda um það einfaldar reglur sem allir þekkja.