133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[14:11]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er þetta með fénýtinguna. Íslenskur ferðamaður sem á ekki bát og fer með kunningja sínum, hann veiðir fisk og notar hann fyrir fjölskyldu sína og honum er það heimilt. Íslenskur ferðamaður sem á bát og ferðast með hann um landið, hann getur farið að veiða og tekið afla sem hann nýtir fyrir sig og fjölskyldu sína. Í hvorugu tilvikinu er magnið takmarkað.

Íslenskur maður sem á bát, er ekki á ferðalagi heldur á bara bát í höfn, hann getur farið að veiða á sínum eigin bát og veitt. Ég spyr: Hvernig ætlar ráðherrann að draga þessa línu þegar um það er að ræða að menn fara út á báta sem eru gerðir út til sportveiða og veiða eins og hinir mennirnir og menn ætla að taka bara aflann með sér og nota hann til eigin nota? Ætlarðu þá að láta þá samt sem áður vera inni í kvótakerfinu?