133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[14:12]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég nefndi áðan þá snýst þetta um það þegar menn eru farnir að gera sér atvinnu úr því að stunda slíkar veiðar. Þá taka einfaldlega við önnur ákvæði laganna sem eru þessi ákvæði um atvinnuveiðar.

Grundvöllurinn að frumvarpinu er einfaldlega sá að það er verið að reyna að draga skil, vegna þess að það er ljóst mál að það er að vaxa úr grasi atvinnuvegur sem byggir á því að selja mönnum aðgang að bátunum, leyfa þeim að fara á sjó, fiska aflann og ef um er að ræða svo mikinn afla að menn torga honum ekki sjálfir og vilja hafa af honum tekjur þá er það í þessu tilviki fyrirtækið, eins og t.d. þetta fyrirtæki fyrir vestan, Fjord fishing, og önnur fyrirtæki sem eru líka að fara af stað sem hafa þá möguleikann á því, eru þá í raun og veru orðin bara útgerðarfyrirtæki sem selja aflann og með menn í vinnu undir sérstökum kringumstæðum, sem eru að selja aflann og búa sér til úr honum tekjur.

Hér er því auðvitað um að ræða … (SigurjÞ: Meiri háttar vandamál að búa sér til tekjur.) vandamálið er nefnilega ekki að búa til tekjur, vandamálið er fyrst og fremst það að búa til aðstæður svo að menn geti búið sér til tekjur. (Forseti hringir.) Og það er ekkert óeðlilegt við það að þessar útgerðir séu þess vegna með sambærilegum hætti eins og önnur trilluútgerð í landinu.