133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[14:18]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Um leið og þessir bátar eru komnir með leyfi til veiða í atvinnuskyni, mega þeir gera allt sem aðrir bátar mega gera sem veiða í atvinnuskyni. Þeir mega nota sömu veiðarfæri og þeir bátar gera, þeir mega nota handfærarúllur sem ganga fyrir rafmagni og þeir mega gera allt sem bátar sem veiða í atvinnuskyni mega gera.

Ætlar hæstv. ráðherra að opna fyrir það að hægt verði að gera út báta í atvinnuskyni með hvers konar veiðarfærum sem leyfð eru á slíkum bátum og með skipstjórum sem ekki hafa réttindi? Er hæstv. ráðherra að opna fyrir það að hægt verði að fara út að veiða á þessum bátum án þess að uppfylla lágmarksskilyrði sem í gildi eru gagnvart íslenskum aðilum sem vilja stunda sjó? Á að fara að búa til sérstakar reglur fyrir útlendinga sem hingað koma um að þeir megi veiða í atvinnuskyni án þess að uppfylla lágmarksskilyrði sem við Íslendingar þurfum að uppfylla? Eða hvað er hæstv. ráðherra að leggja til? Gerir hann sér grein fyrir því til hvers þetta getur leitt? Er jafnvel verið að mismuna hér íbúum Íslands og EES-svæða?