133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[14:40]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af hverju er þetta frumvarp lagt fram núna? Það var reyndar lagt fram fyrir jólin en vegna þess að þá var auðvitað liðið á þann þingtíma og því ekki hægt að koma því á dagskrá þá og við vitum hvað síðan hefur gerst eftir áramótin. Þetta mál var í undirbúningi í sjávarútvegsráðuneytinu, m.a. eftir athugasemdir og álit umboðsmanns og það var einfaldlega lagt fram þegar það var tilbúið.

Það má vel vera að þetta þróist þannig eins og hv. þingmaður sagði, að það verði meiri áhugi á því að úthlutanirnar verði til lengri tíma. Það kæmi mér ekki á óvart vegna þess að ég held að það séu himinhrópandi rök fyrir því að það sé skynsamlegra. Það verður auðvitað tíminn dálítið að leiða í ljós en við vorum einfaldlega að opna þennan möguleika með frumvarpinu, ekki að neyða menn inn í þennan farveg. Að því leytinu má segja sem svo að við séum ekki að reyna að njörva alla hluti niður.

Hvort ég vilji nýta möguleika 10. gr. að fullu þá hef ég í sjálfu sér ekki haft uppi neinar hugmyndir um stefnubreytingu í þeim efnum. Þessi 12 þúsund tonn sem við höfum haft hafa verið nýtt eins og þar segir, að vísu höfum við reyndar talið línuívilnun með í því en ég hef ekki haft nein sérstök áform um breytingu á þessu.

Varðandi það hvort sveitarfélögin nýta sér möguleika. Já, auðvitað verða sveitarfélögin að fá að nýta sér alla þá möguleika sem þau hafa innan þessa ramma. En það sem kom fram í áliti umboðsmanns Alþingis laut mjög mikið að því að það væri nauðsynlegt að við settum almennar skýrar reglur sem öll sveitarfélög yrðu að lúta. Sem dæmi má nefna skráningartíma báta, þ.e. hvaða bátar kæmu til álita til úthlutunar á byggðakvóta, að þeir yrðu að vera skráðir á sama tíma í öllum sveitarfélögum. Það eru þessir hlutir sem við þurfum að setja í reglurnar. Það er ekki verið að fælast eða að reyna að forðast einhverjar óvinsælar ákvarðanir, það er eingöngu verið að segja til um frekari útfærslu á reglunum að betra sé að fengist sé við þær heima fyrir þar sem staðarþekkingin er mest.