133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[14:42]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég held að sé ákaflega mikilvægt hvað varðar sveitarfélögin og meðferð þeirra á þessu máli er að það sé alveg á hreinu að þau fái til sín möguleikann á því að ráðstafa þessum kvóta með sem hagkvæmustum hætti fyrir sig. Almennar reglur um þetta efni geta verið trafali hvað það varðar ef hæstv. ráðherra hefur það í huga að hamla möguleikunum t.d. á því að sveitarfélögin geti boðið þennan kvóta út.

Ég vil endilega að hæstv. ráðherra svari því alveg skýrt hvort hann telji að það samrýmist þeim hugmyndum sem hann hefur um að setja reglur að sveitarfélögin geti gert þetta. Mér finnst af lestri frumvarpsins að það sé ekki alveg hægt að átta sig á því vegna þess að þar er talað um að hæstv. ráðherra ætli að setja reglur um framsalið og allt sem viðkemur hlutunum, það eigi hins vegar að vera hlutverk sveitarfélaganna að úthluta og nefndarinnar að taka við kærunum, þannig að hæstv. ráðherra er þá orðinn stikkfrí og óvinsældirnar lenda annars staðar.