133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[14:44]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nokkrar stuttar spurningar í andsvari til hæstv. sjávarútvegsráðherra, kannski til að reyna að liðka fyrir umræðunni á eftir, að þá sé ekki verið að fara fram með langar ræður um hluti sem liggja kannski alveg ljóst fyrir.

Hæstv. ráðherra sagði að þetta væri svo sem ekki stórt mál, byggðakvóti upp á 12 þúsund tonn og línuívilnanir. Það vill nú svo til að þessi 12 þúsund tonna byggðakvóti, ef hann væri á hinum frjálsa og hamingjusama leigumarkaði sem við ræddum fyrr í dag, þá sýnist mér verðmæti hans vera í kringum 2 milljarða kr. Það hefur orðið mikil umræða í þjóðfélaginu um 3 milljarða kr. sauðfjársamning og mér sýnist þær stærðir sem hér eru til umræðu kannski ekki svo langt frá því.

Mig langar að hnykkja aðeins á þessu með 12 þúsund tonnin og að hæstv. ráðherra svari því kannski skýrar: Þýðir þetta að 12 þúsund tonn fari í byggðakvóta? Bara klippt og skorið og klárt að allar þessar heimildir verði nýttar sem byggðakvóti en fari ekki til úthlutunar til þeirra aflamarksskipa sem eiga aflamark.

Annað sem mig langar að spyrja um varðar það að ráðherra setji með reglugerð — þessar reglugerðir fara nú svolítið í taugarnar á mér, hve þær eru orðnar viðamiklar — ákvæði um skilgreiningu á byggðarlögum samkvæmt 1. gr. Í 1. gr. segir að það megi ráðstafa þessu þannig til stuðnings byggðarlögum og síðan er einhver skýring á því en svo á ráðherra að skilgreina í reglugerð hvað byggðarlag þýðir. Getur hæstv. ráðherra sagt okkur í stuttu máli til að reyna að flýta fyrir umræðunni, hvað þýðir þetta í raun? Hvað er byggðarlag samkvæmt því sem hann er að hugsa í þessu sambandi?