133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[14:46]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég nefndi áðan að þetta væri kannski ekki stórmál í þeim skilningi var ég að vísa til þess að þær byggðakvótaheimildir sem hér er um að ræða og við höfum verið að úthluta, og þá tek ég bæði til byggðakvótans sjálfs og línuívilnunarinnar, svara til þess samkvæmt útreikningum okkar að vera innan við 5% af úthlutuðum aflaheimildum í þorski og ýsu á síðustu þremur árum. Það var þetta sem ég átti við vegna þess að mér hefur stundum fundist að þeir sem gagnrýna byggðakvótann, m.a. útgerðarmenn, hafi verið að gera úlfalda úr mýflugu. Þetta eru ekki það stórar heimildir að þær trufli alla útgerð í landinu. Hins vegar er alveg rétt að þetta skiptir máli og þar sem vel tekst til getur þetta skipt gríðarlega miklu máli og dæmin sanna það.

Fara öll 12.000 tonnin í byggðakvóta? Heimildin er sú, og ég ræð þessu auðvitað aðeins þann tíma sem ég sit sem sjávarútvegsráðherra, að allt að 12.000 tonn fari í hann. Hugmynd mín hefur eingöngu verið sú að vera með svipað umfang og við höfum verið með í dag, þannig að við verðum með sambærilegt til línuívilnunar og við verðum með svipað umfang til byggðarlaganna og síðan svipað umfang vegna rækju- og skelfisksbrests. Á bak við þetta frumvarp liggur ekki nein sérstök hugsun um að breyta þessum stærðarhlutföllum sérstaklega.

Varðandi það hvernig byggðarlög verða skilgreind. Þau verða skilgreind með nákvæmlega sama hætti og gert hefur verið núna. Ég kann ekki abstrakt hvernig skilgreiningin er frá orði til orðs. En þarna er ekki átt við sveitarfélög, þannig að það sé alveg skýrt. Við erum að tala um einstök byggðarlög. Þau geta verið mörg innan sama sveitarfélagsins. Þetta er gert til að koma til móts við minni byggðarlögin. Gert er ráð fyrir að byggðarlög sem fara yfir 1.500 íbúa eigi ekki lengur rétt á byggðakvóta. Síðan má auðvitað hugsa sér hvort það verði látið fjara smám saman út svo þau verði ekki fyrir miklu höggi við það eitt að fara í 1.501 íbúa. (Forseti hringir.) Þetta er svona grundvöllurinn í þessu.