133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[15:58]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu sem hefur verið ekkert mjög löng, hófleg að lengd, en ákaflega efnisleg að mínu mati. Hér hefur verið farið vítt og breitt yfir sviðið og eins og nefnt var í upphafi væri tilefni til þess í 1. umr. um svona mál að ræða þau nokkuð vítt og breitt. Það er auðvitað sjálfsagður hlutur. Ég nefndi það í framsöguræðu minni að ég vænti þess að menn gætu komist að sameiginlegri niðurstöðu um þetta mál vegna þess að tilgangurinn með frumvarpinu hefur í sjálfu sér ekki verið vefengdur og mér hefur heyrst í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar að almennt væru menn þeirrar skoðunar að það ættu að vera til staðar einhver úrræði — menn getur greint á um hversu mikil — sem gætu tekið á þeim vanda sem kemur upp þegar veiðirétturinn hverfur úr byggðarlagi af einhverjum ástæðum. Hitt er það að þetta eru umdeild mál og þess vegna sjálfsagt að fara yfir frumvarpið eins og sjávarútvegsnefnd er vön að gera við þau frumvörp sem fyrir hana eru lögð. Fróðlegt verður að heyra þau viðbrögð sem koma frá einstökum hagsmunaaðilum. Sum þeirra eru náttúrlega mjög fyrirsjáanleg eins og við vitum og í sjálfu sér kannski ekki við neinum stórtíðindum að búast þar.

Hv. þm. Jón Gunnarsson lagði fyrir mig í þessari umræðu allnokkrar spurningar sem ég ætla að freista þess að svara. Hann velti fyrir sér hvort búið væri í raun að úthluta byggðakvótanum fyrir þetta fiskveiðiár. Það er búið að afmarka þann ramma, það er búið að taka ákvörðun um það með reglugerð hversu mikill hluti af aflakvótanum á þessu ári fer til einstakra hluta eins og línuívilnunar, byggðakvóta, kvóta vegna rækju- og skelfisksbrests, en í sjálfu sér er ekki búið að úthluta kvótanum til einstakra byggðarlaga. Það verður að bíða niðurstöðu þessa frumvarps því að það er ekkert ólíklegt að það kunni að leiða til einhverra breytinga á forsendum.

Eins og menn vita höfum við byggt þetta á mjög efnislegum atriðum. Það er lögð til grundvallar tiltekin þróun í kvóta og ýmsum öðrum þáttum sem í raun og veru búa til tölur um það hvað fer til hvers byggðarlags í byggðakvótum. Ég hef ekki orðið var við að mikill ágreiningur hafi ríkt um það mál í sjálfu sér, menn hafa ekki beinlínis fundið að þessari aðferð, enda hefur hún verið að þróast í gegnum tíðina, það er síðan frekar eitthvað annað sem menn hefur greint á um.

Hv. þingmaður velti aðeins fyrir sér hvort það ætti að kveða á um stærð byggðarlaga. Það er auðvitað eitt af því sem er umdeilt en markmiðið með þessum byggðakvótum hefur m.a. verið það að reyna að koma sérstaklega til móts við hin minni byggðarlög. Það hefur einmitt verið kveðið á um það í lögunum að tala um hin minni byggðarlög og þá hefur í reglugerð verið reynt að skilgreina hver væru hin minni byggðarlög. Af hverju ætli það sé? Jú, auðvitað er það vegna þess að við erum hér að útdeila takmörkuðum heimildum og við erum þá að reyna að koma þeim til þeirra staða sem við ætlum að hafi minnstu viðreisnarmöguleika ef þeir verða fyrir því að missa kvótaheimildir sínar.

Við sjáum, ef við tökum bara dálítið öfgafullt dæmi, að ef Reykjavík stæði frammi fyrir því að héðan væru seld 2 eða 5 þús. þorskígildistonn væri það auðvitað slæmt fyrir þá sem hefðu starfað hjá þeim útgerðum e.t.v. en það mundi væntanlega ekki hafa mikil áhrif á atvinnu- og efnahagsstöðu byggðarlagsins í heild. Það er verið að reyna að koma sem mestu af þessum heimildum inn á veikustu byggðarlögin með skírskotun til þess að eftir því sem þau eru stærri er atvinnulífið fjölbreyttara og atvinnutækifærin þá fleiri og þess vegna er ástæða til að mínu mati að hafa ákvæðið um stærð byggðarlaga.

Hv. þingmaður velti líka fyrir sér hvort verið væri að auka eða minnka vald sveitarstjórna. Kannski er svarið ekki alveg einhlítt. Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan liggur m.a. álit umboðsmanns Alþingis til grundvallar þessu frumvarpi. Það álit var býsna afdráttarlaust. Það fól í sér að það yrðu að liggja fyrir samræmdar reglur þar sem kveðið væri á um tiltekna hluti. Eitt af því sem umboðsmaður lagði mikla áherslu á í áliti sínu var að tímasetning yrði t.d. að liggja fyrir nákvæmlega, hvaða bátar gætu komið til greina. Það væri ekki hægt að miða við skrásetningu 1. september hjá einum bát, 1. nóvember hjá öðrum, 1. mars e.t.v. í þriðja sveitarfélaginu, heldur yrðu svona hlutir allir að liggja algjörlega fyrir.

Það er líka reynt með þessum lögum að setja frumvarpið fram þannig það sé alveg ljóst mál að þessi byggðakvóti, sem er takmarkaðar en hins vegar verðmætar heimildir, geti skipt miklu máli, komi að sem mestum notum. Þess vegna er t.d. þetta ákvæði um að menn hafi ekki heimild til að framselja frá sér kvóta, þennan byggðakvóta, og þess vegna eru hér uppi ákvæði sem fela það í sér að menn skuli landa þessu til vinnslu í byggðarlögunum sínum, svo fremi sem byggðarlagið sé með fiskvinnslu. Það geta auðvitað verið dæmi um annað, og ég þekki t.d. að í Árneshreppi á Ströndum sem hefur fengið byggðakvóta er ekki fiskvinnsla. Við ætlum samt ekki að koma í veg fyrir að slíkt byggðarlag geti fengið byggðakvóta, hann getur nýst að öðru leyti.

Hv. þingmaður velti fyrir sér hvort þetta ákvæði varðandi löndunarskylduna og framsalsbannið væri vísbending um að við teldum að þar hefðu verið einhver ljót mál, sóðaskapur í kringum byggðakvótann, eins og ég held að hv. þingmaður hafi orðað þetta. Við þekkjum dæmi um að útgerðir sem fengu byggðakvóta hafi leigt hann frá sér. Það er auðvitað óþolandi. Það er mjög eðlilegt þegar um er að ræða úthlutun undir sérstöku sjónarhorni, eins og þessi úthlutun er, að gerðar séu sérstakar kröfur til manna sem fá þessar heimildir. Það er ósköp eðlilegt að Alþingi, sem tekur þessa ákvörðun, segi jafnframt: Því fylgja tilteknar skyldur að menn fái þennan rétt vegna þess að þetta eru ekki bætur sem eru hugsaðar til einstakra útgerða, þetta eru bætur sem eru hugsaðar til viðreisnar og atvinnuuppbyggingar í tilteknum byggðarlögum sem uppfylla síðan skilyrðin. Það er það sem þetta gengur út á. Það er svo mikilvægt að menn átti sig einmitt á þessum kjarna málsins. Ef við værum ekki með þetta svona mundum við auðvitað úthluta þessu allt öðruvísi, þá fengju útgerðarmenn sem yrðu fyrir skerðingum en ekki byggðarlög sem yrðu fyrir skerðingum.

Hv. þingmaður spurði mig líka hvort við værum ekki að búa til eitthvert handahófskennt, matskennt vald sveitarstjórnanna með því að hafa sérstakt ákvæði þar sem þeim væri gefið tækifæri til þess að koma með viðbótarskilyrði. Það er ekki hugsunin. Hins vegar er það þannig að við þekkjum að aðstæður geta verið mjög sérstakar. Við töldum ekki skynsamlegt meðan við undirbjuggum þessi mál, og ég taldi það ekki skynsamlegt, að girða algjörlega fyrir það að menn hefðu einhverja möguleika til að bregðast við ef aðstæðurnar væru mjög sérstakar. Ég ætla hins vegar að segja það og mér finnst vel athugandi fyrir sjávarútvegsnefnd að velta því fyrir sér hvort þarna megi herða dálítið á skrúfunum því að ég er alveg sammála því að við megum ekki opna leiðir á einhverja handahófskennda hluti því að það býður hættunni heim og það býður mikilli ósanngirni heim.

Hv. þingmaður spurði mig líka hvort það að menn kærðu til kærunefndarinnar frestaði úthlutun. Það er þannig. Þess vegna er kærufresturinn m.a. hafður skemmri í þessu ferli en almennt er tíðkað. Við viljum auðvitað greiða fyrir því að menn viti strax stöðu sína. Ef menn finna að og kæra fyrir hönd sjálfra sín hefur það áhrif á heildarúthlutunina til viðkomandi byggðarlags þannig að það er óhjákvæmilegt að kæran fresti úthlutuninni.

Af hverju er kærunefnd í þessu en ekki einhverju öðru? Ástæðan er einföld, ja, kannski ekki alveg einföld, en hún er svona: Þetta mál er dálítið sérstakt. Þetta er mál sem er í fyrsta lagi fiskveiðistjórnarlegs eðlis, í öðru lagi byggðalegs eðlis og í þriðja lagi lýtur það að málefnum sveitarstjórnanna. Mitt mat var því það að ekki væri skynsamlegt að kæruúrskurðarvaldið væri eingöngu hjá sjávarútvegsráðherranum þó að ég telji almennt talað að við eigum að fækka kærunefndum og frekar að færa þetta vald til ráðuneytanna — eins og hefur reyndar verið stefnan og ég held að flestir hafi nú verið sammála um — en mér finnst þetta mál vera dálítið sérstakt vegna þess að þetta hefur þessa þríheilögu skyldu, þ.e. byggðalega, sveitarstjórnarlega og fiskveiðistjórnarlega.

Hv. þingmaður spurði mig hvort sveitarstjórnir hefðu verið búnar að fá þetta frumvarp í hendur. Það er alveg á hreinu að þetta frumvarp fór bara sína leið inn í þingflokka ríkisstjórnarflokkanna og eftir að það var afgreitt þaðan var það lagt fram hér á Alþingi. Þá var það hins vegar orðið opinbert plagg og það var strax í desember. Mér er ekki kunnugt um að við höfum með neinum skipulögðum hætti sent frumvarpið, það er hins vegar ekkert ólíklegt að einhver hafi óskað eftir því í ráðuneytinu og þá hafi verið við því brugðist með því að senda tilteknum sveitarstjórnum frumvarpið hafi verið eftir því leitað. En þetta er auðvitað orðið opinbert plagg sem menn nálgast á neti Alþingis þannig að ég held að það sé ekkert að því í sjálfu sér.

Hv. þingmaður spurði líka hvort sveitarstjórnir mættu gera kröfu um að menn legðu kvóta á móti. Ég sé ekkert að því. Ég sé ekki neitt sem gæti verið í hugsanlegum reglugerðum ráðuneytisins sem ætti að koma í veg fyrir slíka kvöð. Mér fyndist ekkert óeðlilegt að menn settu einhverjar svona kvaðir á menn sem fá byggðakvótann til að tryggja að það verði eitthvert margfeldi þannig að það verði eitthvað meira úr honum. Mér finnst a.m.k. alveg sjálfsagt að það rými sé til staðar en varðandi útboð held ég að það sé kannski aðeins flóknara. Ég vil ekki svara því neitt mjög ákveðið.

Að öðru leyti vil ég segja almennt um spurningu hv. þingmanns, sem var í lokin, um hvaða svigrúm væri þá til útfærslu: Svigrúmið verður bundið í fyrsta lagi af lögunum. Það eru ákveðnir hlutir sem við erum að negla niður miklu fastar núna eins og t.d. framsalsmálið umfram það sem við vorum með áður. Við erum að gera það varðandi löndunarskylduna og við munum gera það varðandi ýmsa þætti sem nefndir eru sem reglugerðarheimild og það er ætlun mín að kynna þessa reglugerð fyrir sjávarútvegsnefnd áður en málinu verður lokið þannig að menn hafi það þá í huga. Ég er almennt talað þeirrar skoðunar að það sé betra í svona málum að við getum neglt niður hlutina í lagasetninguna. Sumt er hins vegar þess eðlis að það krefst reglugerða en ég er almennt þeirrar skoðunar að það sé betra að hafa svona hluti í lögum.

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér þarf ég ekki að auka miklu við þessa ræðu. Ég ítreka að mér fannst umræðan vera efnisleg. Þær spurningar sem hv. þm. Jón Gunnarsson lagði fyrir mig, þó að þær væru býsna margar, voru eðlilegar og til þess fallnar þá að greiða fyrir meðferð málsins í þingnefndinni. Það er af hinu góða.

Síðan vil ég bara ítreka að ég vænti þess, og veit, að þetta mál mun fá góða efnislega umfjöllun í þingnefndinni. Það verður fróðlegt að heyra viðbrögð ýmissa hagsmunaaðila. Ég þykist vita að sum þeirra séu nokkuð fyrirsjáanleg, þetta eru að því leytinu gamlir kunningjar. Eitt vil ég segja, ég held að það skipti mjög miklu máli að þetta mál verði afgreitt fyrir vorið. Það er ákveðin óvissa sem skapaðist í fyrsta lagi við athugasemdir og álit umboðsmannsins sem er mjög mikilvægt fyrir okkur að eyða og í öðru lagi er þessu frumvarpi ætlað að reyna að gera þennan byggðakvóta markvissari. Það er það sem er undirliggjandi og það er það sem liggur á bak við þetta frumvarp og ekkert annað. Til þess að nýta þessar heimildir sem best skiptir þess vegna að mínu mati miklu máli að við ljúkum þessari lagagerð með þeim breytingum sem sjávarútvegsnefnd mun telja eðlilegar, og Alþingi líka, til þess að ljúka óvissunni. Það er alveg rétt að það er liðið á þetta fiskveiðiár og það er bagalegt að vera í þeirri stöðu að geta ekki farið að úthluta byggðakvótum og líka vegna þessa ákvæðis sem ég er algjörlega sammála hv. 10. þingmanni Suðurk. að einna mestu máli í þessu skiptir þetta ákvæði um úthlutun til lengri tíma. Það held ég að muni geta tryggt það, eða stuðlað að því öllu heldur, að við munum fá meira af alvöruútgerðarmönnum, öflugum, og heimaaðilum sem vilja taka þátt í því að byggja upp byggðarlag sitt. Við höfum allt of mörg dæmi um það að menn hafa komið þarna til að hafa einnar nætur gaman af byggðakvótanum yfir eitt ár eða svo og horfið svo á burtu og þá höfum við ekki náð þeim árangri sem við ætluðum. Þetta væri hins vegar til þess fallið að stuðla að því að menn gætu séð eitthvað aðeins fram fyrir tærnar á sér, nóg er óvissan samt í sjávarútveginum.