133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

25. mál
[16:27]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Við erum að ræða þingsályktun frá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni í Frjálslynda flokknum og Jóhanni Ársælssyni í Samfylkingunni um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

Í tillögunni segir m.a., með leyfi forseta:

„Lögunum verði ætlað að skapa skilyrði til eðlilegrar verðmyndunar á öllum óunnum fiski á markaði og stuðla að heilbrigðum og gegnsæjum viðskiptaháttum í fiskviðskiptum, og koma þannig á eðlilegum samkeppnisskilyrðum á því sviði.“

Komið hefur fram að tillagan hefur verið lögð fram nokkrum sinnum áður, eða sex sinnum, þetta er í sjöunda sinn sem hún kemur fram. Hún hefur fengið umræðu í sjávarútvegsnefnd en því miður, frú forseti, hefur hún ávallt verið svæfð þar. Umhugsunarvert er að meiri hluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks skuli í raun ár eftir ár sjá sig knúinn til þess að svæfa þingsályktunartillöguna. Meiri hlutinn vill greinilega ekki þær breytingar í sjávarútvegi sem tillagan gerir ráð fyrir og þeir vilja ekki einu sinni ræða þær hugmyndir, enda sést það hér í þingsal, frú forseti, að ekki er einn einasti þingmaður úr liði Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks kominn til að hlusta á umræðurnar.

Í samkeppnislögum segir m.a., með leyfi forseta:

„Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af starfsemi sem nýtur einkaleyfis eða verndar.“

Er þetta ákvæði virt? Nei. Þrátt fyrir að þetta ákvæði sé í samkeppnislögunum á það ekki að vefjast fyrir nokkrum manni að þeir sem hafa fengið úthlutað aflaheimildum og eru jafnframt með fiskvinnslu nýta sér aflaréttinn í verðmyndunarþættinum þannig að viðskiptin eru með öðrum hætti en eðlilegt getur talist.

Varðandi fiskmarkaði sést að þegar selt er beint til fiskkaupenda í beinum viðskiptum sem eiga sér stað milli fyrirtækja sem bæði eru með útgerð og fiskvinnslu og lúta þannig ákvæðum að þau geta verðlagt aflann sjálf með samningum við sjómenn, þá sést að verðið er mun lægra en ef fiskurinn er seldur á innlendum fiskmörkuðum.

Frú forseti. Það er rétt að minna á þau viðskipti þar sem þeir sem hafa fengið úthlutað kvóta gera samninga við útgerðir sem eru kvótalitlar eða jafnvel kvótalausar og leggja upp hjá fiskvinnslufyrirtækjunum. Sem sagt, kvótinn er notaður til að draga til sín viðskipti og þetta er að sjálfsögðu brot á samkeppnislögum. Veiðarnar á Íslandsmiðum eru leyfisbundnar, útgerðin er stunduð í skjóli opinbers einkaleyfis. Þess vegna eigum við að gera þá kröfu á þá sem nýta þessar sameiginlegu auðlindir þjóðarinnar að reksturinn sé gegnsær, að hann sé opinn og gegnsær, eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni. Það á að vera fjárhagslegur aðskilnaður milli reksturs á útgerð og reksturs á fiskvinnslu, og út á það gengur akkúrat þessi þingsályktunartillaga.

Þetta þykja, frú forseti, mjög eðlilegar kröfur í öðrum atvinnugreinum. Með aðskilnaði væri hægt að sjá hvort þeir sem kaupa fisk af mörkuðum séu í raun að keppa jafnfætis, að þeir séu í raun að keppa á jafnréttisgrunni við þá sem kaupa fisk af eigin útgerð.

Frú forseti. Þegar farið er yfir umsagnir sem voru sendar sjávarútvegsnefnd á fyrri sex þingum vegna þingsályktunartillögunnar kemur í ljós að tillagan á víða mikið fylgi, t.d. meðal samtaka sjómanna. Hitt kemur manni ekki á óvart að samtök eins og LÍÚ skuli leggjast gegn henni og tala jafnframt eins og að með þessari tillögu muni fiskveiðar Íslendinga hreinlega leggjast í rúst. Þannig tala einungis varðhundar kvótakerfisins, þeir hinir sömu sem bera ábyrgð á afleiðingum kvótakerfisins sem var, því miður, sett á með lögum 16. desember 1983, þeir hinir sömu sem bera ábyrgð á auðsöfnun á fárra hendur, hruni byggða, sóun verðmæta og svo mætti lengi telja, hv. þm. Kjartan Ólafsson. Það kemur að því að Sjálfstæðisflokkurinn mun gjalda fyrir það óréttlæti sem kvótakerfið er og ég hef grun um, frú forseti, að styttra sé í það en margan grunar.