133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[16:46]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson lýsti því yfir að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs væri andvígur þessu frumvarpi. Það er alveg rétt.

En ég vil spyrja hv. þingmann út í það sem fram kom í máli hans varðandi samkeppnisstöðu mismunandi verslunarmiðstöðva, eftir því hvort þær hafa áfengisútsölu eða ekki. Samanber þá sem hann nefndi, þegar áfengis- og tóbaksverslun ríkisins tók útsölustað úr einni slíkri miðstöð og setti yfir í nærliggjandi blómaverslun. Það hafði áhrif á samkeppnisstöðu þeirrar verslunarmiðstöðvar.

Telur hann að áhugi sé hjá matvöruverslunum og öðrum slíkum á að fá léttvín og bjór inn í verslanir? Hvers vegna? Telur hann að það muni hafa áhrif á verð á öðrum vörum þegar hægt er að draga fólk inn af þessum ástæðum?

Ég spyr hann einnig hvort hann sé ánægður með þá þróun sem orðið hefur í sparnaðaraðgerðum ÁTVR, þ.e. að koma sölustöðum úr sérstökum verslunum sem áður voru yfir í matvöruverslanir eða aðrar þær verslanir sem tiltækar eru á hverjum stað, með mismikilli eða lítilli ánægju íbúanna. Í því sambandi mætti nefna Hveragerði þar sem þess var óskað að fá útsölustað í verslunarmiðstöð en í stað þess var útsölu komið á bensínstöð. Er hv. þingmaður ánægður með þá þróun sem orðið hefur hjá ÁTVR fram að þessu?