133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[16:51]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Guðlaugur Þór Þórðarson nefnir ýmis rök fyrir máli sínu út frá hagsmunum verslunarinnar og í því ljósi er frumvarpið skiljanlegt. Mér fannst vanta í rök hans og þeirra sem horfa á þetta út frá þægindum, að geta gripið með sér léttvín eða bjór um leið og keypt er í matinn, þar sem það yrði hægt í öllum matvöruverslunum, því það yrði þannig, önnur rök en út frá hagsmunum verslunarinnar.

Ég sé ekki að það muni miklu fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu að fara í sérverslun ÁTVR í verslunarmiðstöðvum, sem eru orðnar verslunarmáti fólks í dag, þyrpingar verslana saman. Kaupmaðurinn á horninu er horfinn. Út um land eru útsölustaðir ÁTVR settir í þéttbýliskjarnana. Þótt fólk fari um aðrar dyr til að kaupa áfengi, léttvín og bjór, fremur en að kaupa það í matvöruverslunum finnst mér ekki að menn þurfi að telja þau skref. Áfengisverslanir eru ekki settar eitthvert úti í sveit og þarf ekki að keyra langar leiðir í þær. Þær eru yfirleitt skammt frá eða inni í þessum verslunarmiðstöðvum.

En ef við hugsum þessi mál í víðara samhengi, ekki eingöngu út frá hagsmunum verslunareigenda og út frá hinum fáu skrefum sem þarf að ganga á milli verslana, þá spyr ég hv. þingmann að því, hvort hann meti ekki nokkurs þær ábendingar, þær rannsóknir og leiðbeiningar til allra (Forseti hringir.) þjóða að takmarka aðgengi að áfengi og selja áfengi í sérstökum verslunum til að draga úr þeirri vá sem áfengið er.