133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[17:00]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta mál er flutt hér í fjórða sinn eins og hv. framsögumaður og höfuðflytjandi málsins nefndi, raunar kannski í fimmta sinn og síðan mætti bæta við málum Vilhjálms Egilssonar á síðasta kjörtímabili sem fræg voru fyrir hillumetrareikning. Og kannski má fleira telja saman.

Það er svolítið sérkennilegt við þetta mál að þetta eru tvö mál í einu. Annað kemur fram í frumvarpinu sjálfu en hitt aðeins í lok eins kafla greinargerðar, en er af hálfu flutningsmanna tengt með einhverjum hætti. Mér þykir það sérkennilegt og kem kannski betur að því síðar en ég hefði talið að menn ættu annaðhvort að leggja fram einhvers konar heildarstefnu sína, þessir 14 þingmenn í áfengisverslunarheilbrigðismálum, eða þá að halda sig við einn part.

Ég tel sjálfur koma mjög vel til greina að minnka skattheimtu á áfengi. Ég tel ástæðu raunar til þess að lækka áfengisverð að einhverju marki. Viðmiðun er harla auðveld fyrir okkur sem erum sennilega með nokkurn veginn það hæsta í heimi. Við gætum miðað við norræna svæðið þar sem áfengi er mjög dýrt miðað við önnur svæði, það væri sennilega áfangi sem væri skynsamlegt að miða á hvað sem síðar yrði.

Menn nefna að sjálfsögðu ferðaþjónustuna. Menn nefna það líka að þetta gæti minnkað hvata til smygls og bruggsölu. Ég tel að viðvaranir um það að lækkað verð auki áfengisvandann séu vissulega áheyriverðar en lítils háttar lækkun á áfengisverði mundi þó ekki valda neinum straumhvörfum í því efni.

Hins vegar vakna ýmsar spurningar um meginefni tillögunnar, hið raunverulega efni frumvarpsins. Ég ætla að fjalla betur um það á eftir og verja ræðu minni í það efni.

Eins og ég segi hefur þetta verið flutt þrisvar áður, fyrst held ég án athugasemdarinnar um áfengisgjaldið en ég man það ekki gjörla. Tvisvar hefur þetta náð 1. umr. en þó aðeins einu sinni fengið umsagnir og hingað til hafa eingöngu flutningsmenn tekið þátt í umræðu. Ég er sem sé fyrsti maðurinn sem tek þátt í umræðunum með ræðu, annar en flutningsmaður, og þeir hafa verið samtals tveir. Það er kannski kominn tími til að ræða þetta mál almennilega á þinginu.

Umsagnirnar voru reyndar örfáar þótt beiðni væri send út á nokkurn fjölda. Það komu umsagnir á þinginu 2004–2005 frá sex samtökum eða stofnunum, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, Verslunarráði sem nú heitir Viðskiptaráð og Samtökum ferðaþjónustunnar. Allar þessar umsagnir voru frekar jákvæðar, bæði á hugmyndafræðilegum forsendum og hagsmunatengdum. Samtök ferðaþjónustunnar höfðu raunar einkum áhuga á áfengisgjaldinu, eðli málsins samkvæmt. Síðan kom umsögn frá Lýðheilsustöð sem lagðist gegn báðum efnisþáttum frumvarpsins og væri auðvitað þess virði að flytja hér í heild sinni vegna þess að þar er lagt upp í almenna umræðu um áfengismálin. Lýðheilsustöð þrengir sér ekki niður í hillumetrana eða ÍSAT-staðalinn sem hér er rætt um. Og loks er umsögn frá ÁTVR þar sem gefnar eru einkar hagnýtar upplýsingar um tæknileg efni.

Ég ætla fyrst að ræða um 22%-markið. Ég spyr ósköp einfaldlega: Af hverju miða menn við 22%? Nú veit ég að í fleiri þingmálum er miðað við þessi 22%, m.a. einu sem mitt nafn er á. Ég skammast mín ekkert fyrir það. Ég er samt kannski ekki alveg sáttur við þetta mark. Það er frumvarp um að áfengisaldur verði miðaður við 18 ár og ég flyt það, ekki vegna þess að ég telji brýnt að þessir tveir árgangar bætist við, heldur vegna þess að ég tel að það eigi að vera ákveðin mörk sem við höldum okkur við með fullorðinsaldur og þá eigi borgararnir að fá þau réttindi sem því fylgja, þar á meðal þessi. Þar var þó við það miðað að ungt fólk fengi þessi réttindi í tveimur pörtum, annars vegar 18 ára og hins vegar 20 ára, og þar er miðað við þessi 22%.

Auðveldast er auðvitað að spyrja með Verslunarráðinu af hverju allt skrefið sé ekki stigið í einu. Verslunarráðið segir í bréfi sínu frá 18. apríl 2005 þetta, með leyfi forseta:

„Með ofangreindu frumvarpi yrði vissulega stigið skref í rétta átt að mati ráðsins þótt Verslunarráð telji að fara megi einfaldari leiðir í þessum efnum. Þannig hefur það verið skoðun Verslunarráðs í áratugi að ekkert mæli með einkaleyfi ríkisins til smásölu áfengis. Á það jafnt við um sölu á svokölluðu sterku áfengi og léttvíni.“

Ég spyr: Af hverju flytja ekki þessir ágætu flutningsmenn frumvarp sem er í samræmi við þessi sjónarmið? Er þetta millivegur, málamiðlun, eða er í raun verið að tala um allt áfengi?

Hv. 1. flutningsmaður talaði hér áðan um að andstæðingar frumvarpsins hefðu vantrú á íslenskri þjóð. Vantrú á íslenskri þjóð er það sem einkennir andstæðinga þessa frumvarps, eða athugasemdamenn um það. Það er auðvelt að snúa þessu upp á flutningsmanninn sjálfan og spyrja af hverju hann hafi þá vantrú á íslenskri þjóð að hún megi kaupa vín undir 22% í sjoppum en yfir 22% aðeins á sérstökum útsölustöðum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

Frumvarpsflytjendur og höfundar frumvarpsins tala auðvitað um bjór og léttvín og skipta áfengi þar með í þrennt, bjór, létt vín og sterkt vín, sem er sirka umræða frá því að maður var í gagnfræðaskóla. Í umsögn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins er hins vegar talað um þessa skiptingu þannig að, ætli það séu ekki tölur frá 2004, þetta sterka vín, vín yfir 22%, nemi 4,4% af því magni sem ÁTVR dreifir. Þá voru 45 búðir. Niðurstaða í umsögn ÁTVR þá var að ef salan í ÁTVR er bundin víni, eða réttara sagt að allir aðrir megi selja allt vín nema sterkt, sé ekki forsenda til rekstrar nema á einni eða tveimur vínbúðum.

Í frumvarpinu er vissulega gert ráð fyrir að ÁTVR geti selt allt vín áfram og kannski er ætlast til þess að það taki að sér sölusvæði utan hagkvæmnismarka kaupmanna þótt á það sé ekki minnst. En Höskuldur Jónsson, hinn virti embættismaður, þáverandi forstjóri ÁTVR, minnir á það í umsögn sinni að ÁTVR hafi gefist upp á innflutningi þótt hann sé löglegur eða hafi verið, og sé væntanlega enn, vegna þeirra krafna sem aðrir innflytjendur gerðu um jafna stöðu og um að ÁTVR ræki ekki samkeppni á því sviði, fullkomlega eðlilegar kröfur að mínu viti, en þeir sem sé hættu við það og hann segir ósköp einfaldlega að hið sama mundi smám saman gerast í smásölunni. Smásalar mundu auðvitað leggjast gegn því að ÁTVR væri með samkeppni á sölusvæði þeirra með þá vöru sem þeir selja. Ég tek undir að ef málum væri skipað með þessum hætti væri fullkomlega eðlilegt hjá smásölum að gera þessar athugasemdir og hrekja ÁTVR út af sínu svæði með pólitískum leikjum í gegnum þingið eða ráðherra, með tilstyrk Samkeppniseftirlitsins eða með evrópskum úrskurðum.

Niðurstaða ÁTVR, sem er kannski ekki nefnd mjög greinilega, er auðvitað sú að í framtíðinni yrði áfengi yfir 22% aðeins selt í einni eða tveimur búðum á landinu og þær búðir yrðu að sjálfsögðu á höfuðborgarsvæðinu. Ég bendi hv. þm. Kjartani Ólafssyni á að þær búðir yrðu að sjálfsögðu á höfuðborgarsvæðinu.

Niðurstaða ÁTVR, þótt hún sé ekki sögð af forstjóra þess ríkisfyrirtækis, er sú að það sé svo lítið skref í þessu frumvarpi að það sé í raun og veru um það að leggja Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins niður.

Það eru rök með því og það eru líka rök á móti því. En af hverju er það frumvarp ekki flutt? Af hverju er flutt hér gervifrumvarp, felufrumvarp, frumvarp sem segist vera að gera einhverjar litlar breytingar en er í raun og veru að boða stórt skref í þessu máli? Ég segi aftur: Það eru rök með því en það eru líka rök á móti því og sjálfsagt að við ræðum þau í þessum sal og samfélaginu öllu. En það leggst lítið fyrir þessa 14 kappa að flytja hér frumvarp um það í dularbúningi.

Við skulum aðeins huga betur að 22% og skoða hvaða vébönd eru utan um þetta mál. Það er best að firra strax misskilningi sem stundum kemur upp í áfengisumræðu. Ég tel að bjór sé eðlilegur á landinu. Ég var ekki á þingi þegar greidd voru atkvæði um hann en ef ég hefði verið það hefði ég greitt atkvæði með þeirri breytingu. Ég er áhugamaður um vín, sem við köllum hér létt vín, en það er fleira undir en þetta tvennt. Sérrí og púrtvín eru að styrkleika 17–19%. Það er sem sé vín sem mundi falla undir þessa sölu. Annað vín af svipuðu tagi, Martini og fleira því líkt, er undir 22%. Líkjörar sem ýmsir framleiðendur rétta nú mjög að kaupendum eru 20–22%, undir þessum mörkum, mjög margir líkjörar. Gömlu líkjörarnir, þessir klassísku, Grand Marnier og Drambuie, eru vissulega um 40% eða í kringum það en hneigðin er núna sú að framleiða líkjör við þessi mörk og undir þeim, 22%. Baileys sem margir kannast við og er drukkið á indælum kvöldum er einkum fyrir kvennamarkaðinn. Það er ekki annað en viskí sem blandað er í rjóma. Það er af þessum áfengisstyrkleika þannig að nefnd séu dæmi. Vöruþróun og markaðssókn sterkvínsframleiðenda gengur í þessa átt.

Þetta er gott út af fyrir sig með líkjörana. En það er skrýtið að í þessum fínu athugasemdum þingmannanna 14, fulltrúa frelsisins, skuli ekkert vera minnst á það nýjasta á þessum markaði, þ.e. gosvínið eða sódapoppið sem er helsta nýjungin á markaði fyrir ungt fólk, jafnvel unglinga. Það er líka vöruþróun sterkvínsframleiðenda og ákaflega eðlileg frá þeirra sjónarmiði, sterkt vín blandað með gosi. Þetta er ekki meiri nýjung en svo að við Íslendingar þekkjum þetta öðrum betur, sérstaklega þeir sem voru uppi eða a.m.k. komnir á baraldur fyrir bjórleyfið. Þetta eru ósköp einfaldlega sterkir drykkir blandaðir með gosi eða ávaxtasafa og henta vel á Íslandi þar sem æskulýðurinn drekkur meira gos en nokkurs staðar annars staðar í heiminum og getur síðan skipt yfir í gos af öðru tagi, gosvínið. Þetta er markaðslega snjallt.

Aðallega er þetta af tvennu tagi, annars vegar Baccardi-fyrirtækið sem selur í þessum gosflöskum romm með ávaxtabragði af ýmsu tagi og hins vegar Smirnoff-fyrirtækið sem selur vodka blandað í sítrónu og eitthvað fleira sem ég man ekki hvað er og hef ekki kynnt mér vel. Fyrir nokkrum árum var Campari-sóda selt í einhverjum svona umbúðum og er sem sé framleiðsluvara á Ítalíu. Menn kaupa það með þessum hætti en Campari mundi teljast til sterkra drykkja eitt sér.

Það er mjög mikið fjör í þessum geira á markaðnum og mér skilst að næstu árin megi búast við stórauknu framboði á þessu, sérstaklega hér á Íslandi, að fleiri fyrirtæki fari þessa slóð. Þetta er sem sé undir 22% mörkunum og við þurfum ekki annað en að blanda sterkt vín til helminga, það er yfirleitt 40–45%, og út úr því kemur 20–22,5%.

Það er rétt að hafa þá þrennt í þessu dæmi, bjór, létt vín og gosvín. Í raun og veru er þetta, með nýja laginu eða gamla laginu, ein helsta aðferðin við að drekka sterkt vín. Aðrar aðferðir eru hins vegar þannig að þær yrðu bundnar við ÁTVR, að drekka vín eitt og sér eins og margir drekka viskí eða þá að drekka vín sem snafs eða skot eitt sér eða með bjór sem mjög er algengt um þessar mundir. Maður spyr eiginlega: Hvers eiga unnendur þessara aðferða tveggja að gjalda miðað við þá þriðju, að kaupa þetta tilbúið í gosflöskum?

Þetta er ekki jafneinfalt og menn láta vera í þessu frumvarpi og afhugasemdum við það. Það er í raun og veru ekki mikið áfengi eftir sem ÁTVR ætti að selja miðað við þessa þróun.

Það er svo sérstök áhersla til að vekja athygli á því, forseti, að hv. 1. flutningsmaður talaði áðan um það að þetta væri í raun og veru þegar komið, þetta væri þannig að einkaaðilar seldu vín og þetta munaði engu, þetta væri svona bara formleg leiðrétting. (Gripið fram í.) Það er skrýtið að heyra það frá flutningsmanni vegna þess að hann hefur fengið þessi sex álit sem er tiltölulega auðvelt að renna í gegnum. Ég gerði það á innan við hálftíma í morgun og staldraði þar á meðal við álitið frá Höskuldi Jónssyni, forstjóra ÁTVR, það sem hann skrifar undir, þar sem hann mótmælir sérstaklega þessari staðhæfingu og tekur fram í töluverðum kafla sem ég les kannski síðar að svo sé alls ekki. Hann segir að ÁTVR sé formlegur leigutaki að öllu húsnæði þegar rekstur fer fram með einhverju samstarfi við aðra en ÁTVR, allar innréttingar þar séu eign ÁTVR, allt bókhald annist ÁTVR, ÁTVR fái allt andvirði sölu samtímis inn á reikninga sína þegar um kort er að ræða. Verslunarstjórinn er alltaf starfsmaður ÁTVR og háður lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og þeim fyrirmælum sem starfsmönnum eru sett um allt sérefni þannig að þessi staðhæfing er einfaldlega, við skulum orða það kurteislega, ekki nákvæm hjá flutningsmanninum.

Ég á lítinn tíma eftir hér en það þarf að ræða líkurnar á að eftirlit með aldri kaupenda haldi, og seljenda reyndar líka því að þeir eiga að vera yfir 20 ára samkvæmt frumvarpinu. Það þarf að ræða hvaða kröfur á að gera til sölustaðanna og auðvitað er rétt að vekja athygli á ýmsum rökum með þessum breytingum. Ég tek ekki í sjálfu sér afstöðu til þeirra að þessu sinni, með breytingum í átt að þeim sem lagðar eru til í þessu frumvarpi. Þær eru vissulega fyrir hendi. Þær voru nefndar hér, t.d. breytt vínmenning. Það má segja að fjölgun vínveitingastaða hafi þegar gert aðgengi talsvert. Það má líka nefna eins og hér var rætt áðan í andsvörum um samkeppnisstöðu verslunarmiðstöðva og annarra verslunarkjarna eftir því hvort þar er ÁTVR-búð eða ekki.

Ég held hins vegar almennt að það sé galli að menn ráðist í tillögugerð af þessu tagi á forsendum hugmyndafræði, eins og mér sýnist eiga við um marga af þessum 14 þingmönnum, eða á forsendum hagsmuna, menn séu hér að reka hagsmuni hluta af verslunarfyrirtækjunum í landinu. Eða þá sem sumir virðast vera að gera, a.m.k. meðfram, að ganga í augun á tilteknum kjósendahópum, ungu fólki væntanlega, að fara fram undir meintum merkjum frelsis. Þeir ræða málin eins og þetta sé einhver frelsisbarátta sem hér fer fram um áfengið. Ég held að menn verði að tala í samhengi í þessum efnum. Ég óska eftir því samhengi. Ég óska eftir að flutningsmennirnar 14 geri grein fyrir afstöðu sinni til vínauglýsinga. Í umsögn ÁTVR er m.a. bent á að það sé hætt við enn aukinni auglýsingamennsku núna þegar það eru ekki bara hagsmunir heildsalanna sem skipta máli, heldur hagsmunir einstakra smásala.

Ég vil að þeir lýsi afstöðu sinni til áfengiskaupaaldurs. Ég vil að þeir skýri okkur frá afstöðu sinni til annarra fíkni- og vímuefna en til áfengis, auðvitað tóbaksins annars vegar en hins vegar líka vímuefna sem nú eru ólögleg. Eða hafa þeir vantrú á íslenskri þjóð? Hafa þeir vantrú á íslenskri þjóð við að velja sér vímu- og fíkniefni? Hvers lags eiginlega samræmi er þetta?

Ég óska eftir því að þeir taki afstöðu til athugasemda frá Lýðheilsustöð sem ég hef ekki rætt hér mikið. Hún gerir t.d. þá athugasemd að í áfengismálum ættum við að lækka leyfilega áfengisprósentu við akstur úr 0,5 prómillum í 0,1–0,2 eða jafnvel niður í 0,0. Við þurfum að ræða þessi mál í samhengi og við þurfum að ræða þá fjóra þætti sem viðurkennt er að hafi áhrif á áfengisdrykkju og áfengisvanda, aðgengi, verð, aldursmörk og auglýsingar. Það þýðir ekki að taka einn þátt út úr þessu og berjast fyrir honum sem einhvers konar sjálfstæðis- og frelsisbaráttu fyrir ungt fólk. Það gengur ekki.