133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[17:20]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er gott að ræða þessi mál. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á hvert hv. þingmaður var að fara ef þingmaðurinn var í fullri alvöru að fara fram á að þeir fjórtán flutningsmenn sem flyttu málið gætu bara ekki gengið í það nema að taka allt það sem tengist áfengismálum, hugsanlegt og óhugsanlegt, bara það sem menn hafa hugmyndaflug til, í tengslum við þetta. Ef menn gerðu það ekki þýddi ekkert að koma fram með þetta mál. Mér fannst hv. þingmaður undir lokin tala með þeim hætti.

Gátu menn þá ekki leyft sér bjórinn vegna þess að hann var tekinn einn og sér fyrir en ekki allt það sem hv. þingmaður nefndi? Voru það alveg gríðarleg mistök af því menn tóku þetta ekki fyrir allt saman í einu? Ég held að rétt sé að hv. þingmaður svari því.

Það hlýtur að vera rétt sem hv. þingmaður hélt fram að það þýddi ekkert annað en að ræða allt sem honum dytti í hug sem tengdist þessu í tengslum við frumvarpið. Þá væri það ómark og væri ekki mark á takandi. Þá hlýtur það nákvæmlega sama að hafa átt við þegar menn leyfðu bjórinn.

Það er ekki í fyrsta skipti sem ég fæ þá spurningu, þegar ég hef flutt þetta mál, hvort ég sé fylgjandi ólöglegum fíkniefnum. Því fer víðs fjarri og ég hef aldrei verið fylgjandi því.

Ég nefndi að treysta ætti íslenskri þjóð, ég nefndi það í tengslum við að þessir viðskiptahættir eru öðruvísi í mörgum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þannig er það. Það þekkir hv. þingmaður, enda hefur hann farið til útlanda. En ég veit ekki betur en Íslendingum sé bara ágætlega treystandi til þess að dvelja þar um lengri eða skemmri tíma. Ég veit ekki betur en menn hafi gert það og komið heilir heim. Það er það sem sá sem hér stendur var að vísa í.