133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[17:47]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var að lesa upp úr skýrslu sem Lýðheilsustöð gaf út, „Áfengi, engin venjuleg neysluvara“. Það er alveg sama hvort ég les upp úr þeirri skýrslu, tilmælum Alþjóðaheilbrigðisstofnunar eða öðru, þetta eru þær leiðbeiningar sem koma, að takmarka sölustaði og hafa söluna í ríkisrekinni áfengissölu, það eru leiðbeiningarnar.

Það er mikill munur á því í mínum huga, hæstv. forseti, hvort við erum með góða þjónustu ÁTVR, þ.e. sölustaði, metnaðarfulla sölustaði úti um land — þá er ég að tala um verslanir — eða hvort við erum með áfengi að 22% í öllum matvöruverslunum og bensínstöðvum úti um allt land. Þetta er mismunur á aðgengi, mikill mismunur. Ég vil bæta þjónustu ÁTVR frá því sem hún er í dag og eins úti um land, en þar er mjög mikið kvartað yfir þeim sölustöðum þar sem ÁTVR hefur neyðst til að koma sér inn í aðrar verslanir og er með takmarkað úrval. Það finnst mér miður, að fólk geti ekki verslað úti um land og haft meiri fjölbreytni í vörutegundum. En það er mikill munur á því hvort ÁTVR rekur eina góða verslun í þorpi, eða hvort salan er í matvöruverslunum, sjoppum og bensínstöðvum á staðnum. Þetta er mismunandi aðgengi.

Hvað varðar 20 ára aldurinn. Vissulega er sagt í frumvarpinu að starfsmenn sem afgreiði áfengi megi ekki vera yngri en 20 ára. En þetta á einnig við um tóbakið, þar er aldurinn 18 ára og samt sem áður er það nú þannig að unglingar alveg niður í fermingaraldur reykja.