133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[17:51]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér var tíðrætt um landsbyggðina af því að mér hefur fundist vera meira kvartað þar, sem eðlilegt er, yfir því að ekki skuli vera útsölustaðir ÁTVR í hverju þorpi og það er oft um langan veg að fara og þætti nú sumum höfuðborgarbúunum töluverð vegalengd að fara 50–75 km til þess að fara og kaupa sér áfengi. Eðlilega talaði ég því frekar um landsbyggðina og ég hefði viljað sjá metnaðarfulla áætlun hjá ÁTVR um að koma upp sölustöðum í hverjum þéttbýliskjarna eða því sem næst hverjum þéttbýliskjarna þannig að þetta væri hluti af þjónustu ÁTVR. Ég hafði ekki höfuðborgarsvæðið svo í huga en eftir ábendingu hv. þingmanns er ég alveg sannfærð um að það megi líka kortleggja svæðið hérna og skoða hvort ekki sé ástæða til að setja upp fleiri sölustaði á höfuðborgarsvæðinu, en ég hef ekki skoðað það.

Enn og aftur, það er mikill munur á því hvort það er sérverslun með áfengi eða hvort það er aðgengi í hverri einustu matvöruverslun sem er í landinu, því að það verður þannig og eins á bensínstöðvum, það verður meiri hvati. Það er ágóði að þessu, það er ágóði fyrir smásöluverslunina. Það dregur að, þetta veldur aukinni sölu, þetta verður hvati til söluaukningar og því miður er reynslan sú að þetta veldur aukinni drykkju og þá hjá börnum og unglingum. Þetta vil ég forðast.