133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[18:16]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Í 1. umr. um mál sem koma á Alþingi á að ræða almennt og það er það sem ég er að gera. Ég er ekki meðal flutningsmanna frumvarpsins og skulda engum skýringu á því hvorki fram né aftur og ekki heldur um afstöðu mína til þess. Ég skal gera hana kunnuga og opinbera í lok 2. umr. um málið. Hins vegar ber frumvarpsflytjendum að skýra fyrir okkur alla þættina og ég hef spurt út í nokkra. Komið hefur í ljós og því er ekki mótmælt, að hér sé um það að ræða að leggja Áfengis- og tóbaksverslunina niður og afnema ríkiseinkasölu á áfengi.

Gott og vel. Við skulum ræða það, en þá á það líka að koma skýrt fram. Ég fagna því sem árangri af 1. umr. að því skuli vera ómótmælt. Ég fagna því líka sem árangri að 22%-talan hefur ekkert gildi. Það er ekki verið að útiloka hin svokölluðu sterku vín, sem menn kölluðu í gamla daga og vissu vel við hvað var átt, því sérstakar vínblöndur sterkra vína eru seldar. Eina sem er ekki selt er sterkt vín í því formi að það er hreint annaðhvort eitt sér eða í svokölluðum snöfsum eða skotum sem við þekkjum, ég og hv. flutningsmaður.

Ég tel það líka árangur að 1. flutningsmaður er hættur að tala um vantrú á íslenskri þjóð og beita þeim rökum að hér sé um eitthvert mál í framhaldi nánast af sjálfstæðisbaráttunni og mannréttindayfirlýsingunni í Frakklandi eða Bandaríkjunum að ræða. Heldur sé um að ræða part af víðtækri umræðu sem við verðum að hafa á þinginu og annars staðar vissulega um lýðréttindi en einnig um þann vanda sem neysla áfengis og vímuefna skapar fyrir fjölskyldur, einstaklinga og samfélag.