133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[18:18]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að sá sem hér stendur sé fylgjandi því að leggja niður ÁTVR, en frumvarpið gengur ekki út á það. Ég get alveg viðurkennt það að ég hef engan áhuga á að halda úti ríkisverslun og hef flutt frumvarp um það og líka varðandi t.d. Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég held að það þurfi ekki að koma neinum á óvart að sá sem hér stendur sé ekki fylgjandi því að ríkið standi í verslunarrekstri. Er það einhver stórfrétt? Það er hins vegar ekkert um það í frumvarpinu. Það liggur alveg fyrir, hreint og klárt. Frumvarpið gengur ekki út á það að leggja niður ÁTVR, en ef ég fengi að ráða öllu héldi ég ekki úti ÁTVR. Ég mundi finna aðrar leiðir til þess að sinna því. Svo einfalt er það.

Ég skil ekki þetta hjal varðandi 22% markið, hvað viðkomandi hv. þingmaður telur sig hafa náð fram með því. Fyrir liggur að það er ákveðin skilgreining sem er til staðar. Menn geta rætt það fram og til baka hvort prósentan eigi að vera einhver önnur en þetta er sú prósenta sem er lögð til í frumvarpinu.

Varðandi röksemdirnar um vantrú á íslenskri þjóð þá hef ég bent á þá mótsögn og geri það enn, að það sé svolítið sérstakt þegar menn halda í fullri alvöru að Íslendingar geti ekki umgengist þetta nema í gegnum ríkisverslun. Ef þeir hafa þá vantrú að það sé eina leiðin til þess að menn geri það með því að versla í gegnum ríkisverslun eins og var hér með bíla og eldspýtur og hvað þetta var hér áður, að þá hljóta menn náttúrlega að hafa gríðarlegar áhyggjur þegar Íslendingar fara eftirlitslausir til útlanda. Það hlýtur að vera algjörlega skelfilegt. Þeir fara jafnvel til útlanda án þess að opinber starfsmaður fylgi þeim. Þeir geta lent í því að koma í verslun þar sem enginn opinber starfsmaður er og geta keypt sér léttvínsflösku. Þetta hlýtur að vera mikið áhyggjuefni fyrir þá aðila sem (Forseti hringir.) hafa þessa skoðun.