133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

heildararðsemi stóriðju- og stórvirkjanaframkvæmda fyrir þjóðarbúið.

19. mál
[18:39]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um mat á heildararðsemi stóriðju- og stórvirkjanaframkvæmda fyrir þjóðarbúið. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson. Þetta er 19. mál þessa þings.

Tillögugreinin er á þá leið að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera vandað, óháð og gagnsætt þjóðhagslegt mat á arðsemi og heildaráhrifum þess á efnahagslegan stöðugleika og framvindu íslensks þjóðarbúskapar að ráðist verði í frekari stóriðju- og virkjanafjárfestingar. Leitað verði til hóps sérfræðinga, jafnt innlendra sem erlendra, með breiðan faglegan bakgrunn til að stýra verkefninu, og leiðbeiningar Efnahags- og framfarastofnunarinnar hafðar til hliðsjónar. Einnig verði haft samráð við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um tilhögun verksins. Niðurstöður vinnunnar verði lagðar fyrir Alþingi í formi skýrslu sem komi þar til umræðu.

Eins og tillaga þessi ber með sér er það satt þótt ótrúlegt sé að engin eiginleg þjóðhagsleg greining hefur farið fram á áhrifum stóriðju- og virkjanafjárfestinga fyrir heildarhagsmuni íslenska þjóðarbúsins. Stjórnvöld sjálf hafa lagt lauslegt mat á líkleg hagvaxtaráhrif einstakra framkvæmda og þá oftast borið þau saman við þann tilbúna eða fræðilega valkost að ekkert annað gerðist eða kæmi í staðinn. Þetta er þeim mun undarlegra sem öllum er ljóst, a.m.k. nú í ljósi fenginnar og dýrkeyptrar reynslu frá árunum 2002–2006, að slíkar risaframkvæmdir með tilheyrandi innstreymi fjármagns og væntingaáhrifum hafa geysileg ruðningsáhrif í för með sér í efnahags- og atvinnulífinu. Það er algerlega borðleggjandi að útreikningar sem byggjast á að bæta hagvaxtaráhrifum stóriðjuframkvæmda við sem hreinni viðbót án þess að reikna með neinum frádráttarliðum á móti vegna fórnarkostnaðar annars atvinnulífs, aukinnar verðbólgu, meiri óstöðugleika o.s.frv. eru byggðir á sandi.

Nú er það þannig, virðulegi forseti, að á undirbúningsstigi eru a.m.k. þrjú risavaxin álvers- og virkjanaverkefni í viðbót, þ.e. stækkun álversins í Straumsvík um framleiðslugetu upp á lítil 280 þús. tonn, úr 180 þús. tonnum í 460 þús. tonn, álver í Helguvík, eða væntanlega fyrri áfangi að álveri í Helguvík, upp á 250 þús. tonna framleiðslugetu og álver við Húsavík af sömu stærð. Fleiri áform eru reyndar uppi eins og hér hefur komið fram í umræðum á Alþingi um álgarða og jafnvel lítið álver við Þorlákshöfn. Fyrirtækið Norsk Hydro hefur kynnt áform sín um að setja sig inn í röðina og að það hafi áhuga á að reisa að minnsta kosti 600 þús. tonna álver á Íslandi. Fyrirtækið hefur ákveðið að stofna umboðsskrifstofu hér sem á að sjá um fjárfestingar og markaðssetningu þessa norska stórfyrirtækis á Íslandi, Grænlandi og í Kanada. Vitað er um áhuga rússneska risans Rusals, og jafnvel fleiri renna hýru auga til landsins enda fer miklum sögum af vinskap núverandi ráðamanna við álrisana og hversu bóngóðir þeir séu og greiðviknir á allan hátt, ekki síst í því að skapa þeim ódýra orku.

Þessar stóriðjufjárfestingar einar sem ég hér nefni til sögunnar, þessi þrjú verkefni, eru samtals áætlaðar upp á 430 milljarða kr., þ.e. nálægt 35% af áætlaðri landsframleiðslu þessa árs.

Ef við tökum til samanburðar fjárfestingarnar í yfirstandandi stóriðju- og virkjanahrinu á Austurlandi og á Suðvesturlandi voru þær upp á um 300 milljarða kr., nálægt 25% af vergri landsframleiðslu. Þetta er sem sagt nærri 1,5 sinnum meira sem gæti þá komið inn í hagkerfið á kannski eilítið lengra tímabili, 4–8 árum í staðinn fyrir 4–5.

Nú er það svo að efasemdir um arðsemi stóriðjufjárfestinganna sem slíkra, svo að maður tali ekki um efasemdir um þjóðhagslega arðsemi þessa þegar þjóðarbúið í heild er skoðað, fara mjög vaxandi. Arðsemi verkefnanna er náttúrlega fyrst og fremst háð því að viðunandi orkuverð fáist en það er eins og kunnugt er mjög lágt, svo lágt að það verður að halda því leyndu.

Landsvirkjun veitir ekki upplýsingar í reikningum sínum um ávöxtun eigin fjár eigenda sinna og burðast þeir við að halda orkuverðinu leyndu eins og kunnugt er. Á þetta benda erlendar sérfræðistofnanir og matsstofnanir, að þetta geri mönnum erfitt um vik að leggja mat á það hvort þetta sé skynsamlegt.

Enn fremur hefur verið á það bent að engin tilraun er gerð til að meta umhverfislegan fórnarkostnað, ekki er gerð tilraun til að áætla hæfilegt endurgjald fyrir nýtingu náttúruauðlindanna, ekkert mat er lagt á áhættuna fyrir hagkerfið og líkur á kostnaðinum sem aðrir aðilar í þjóðarbúskapnum, ekki síst fjölskyldurnar í landinu, taka á sig vegna hugsanlega meiri óstöðugleika.

Þá hefur verið sýnt fram á, m.a. af fleiri en einum innlendum greiningaraðila, og á hið sama er bent í skýrslum alþjóðlegra matsstofnana eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðs OECD, að nettóvirðisauki stóriðjustarfseminnar fyrir hagkerfið er tiltölulega lítill. Það er sökum þess að innlendir kostnaðarþættir vega ekki þungt, þeir eru innan við þriðjungur og jafnvel ekki nema fjórðungur af veltu fyrirtækjanna þegar um er að ræða erlendan eiganda þannig að arðurinn til erlendra höfuðstöðva fyrirtækisins renni úr landi.

Skuldabyrðin vegna fjárfestinga í stóriðjuuppbyggingunni vegur hins vegar mjög þungt í þjóðarbúskapnum, er t.d. á góðri leið með að verða hluti af því sem er að fella lánshæfismat Íslands. Þar með verður það að kostnaði sem aðrir aðilar taka á sig, skuldugir aðilar, önnur fyrirtæki og heimilin í landinu.

Staðreyndin er sem sagt sú að engin tilraun hefur verið gerð til þess að meta þjóðhagsleg heildaráhrif og þjóðhagslega heildararðsemi þessara fjárfestinga fyrir þjóðarbúið.

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hefur í skýrslum sínum um íslenskt efnahagslíf ítrekað bent á nauðsyn þess að reyna að meta á breiðum grunni og með gagnsærri hagkvæmnisgreiningu, því sem þeir kalla á enskunni „cost benefit framework“, hvort frekari stóriðju- og virkjanaverkefni séu hagkvæm fyrir landið og hvort í þau sé skynsamlegt að ráðast yfir höfuð, og í öllu falli hvernig ætti þá að reyna að standa að því að tímasetja þau miðað við hagsveifluna og dreifa þeim á langan tíma.

Samhliða þessari tillögu flytjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tillögu sem við höfum áður gert um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Þar er gert ráð fyrir því að stöðvaðar verði allar frekari stóriðjuframkvæmdir um nokkurt árabil og hagkerfinu gefinn kostur á að jafna sig og náttúru landsins gefin grið á meðan. Þannig ber að skoða þessar tvær tillögur í samhengi. (Gripið fram í.) Nei, ég vísa bara til hinnar tillögunnar sem er á þskj. 14, búið að mæla fyrir og er komin til nefndar.

Svo að ég vitni aðeins áfram, virðulegi forseti, í skýrslur OECD, því að stundum virðist sannleikurinn þurfa að koma að utan — þar er þá ekki á ferðinni einhver áróður frá Vinstri grænum — þá segja þeir t.d. að þegar litið sé til meðallangs tíma muni tímasetning frekari stórfjárfestinga í ál- og orkugeiranum skera úr um, einfaldlega skera úr um, hvort stöðugleiki náist í efnahagslífinu. Og segja síðan:

Nú er útlit fyrir að vinna hefjist á nýjum verkefnum áður en jafnvægi í efnahagslífinu, (e. adjustment), sem tekið var að hilla undir, náist til fullnustu.

Þeir vara sem sagt við því í skýrslu sinni síðsumars að nú þegar stefni í, ef allt fer sem horfir, að framkvæmdir hefjist áður en hagkerfið nái að jafna sig, það muni leiða til þess að eftirspurn aukist fyrr, verðbólguspár muni haldast háar, það muni gera stefnumótun í peningamálum erfiðari, og erfiðara um vik að tryggja stöðugleika, og enn fremur muni aukin eftirspurn hafa í för með sér óhagstæðari fjármagnsjöfnuð, þ.e. á mannamáli aukinn viðskiptahalla, á nýjan leik. Gengi krónunnar muni taka að styrkjast og þó að þannig dragi úr verðbólgunni tímabundið muni það íþyngja öðrum greinum í atvinnulífinu o.s.frv.

Þeir OECD-menn fara síðan rækilega yfir það sem þeir hafa fengið upplýsingar um hvað varðar stærðargráðu framkvæmdanna sem eru í pípunum. Athyglisvert er að kannski hefur ekki áður birst opinberlega betri kortlagning á því fyrir utan þá það sem hefur komið fram í þingmálum og þingræðum okkar vinstri grænna. Svo undarlegt sem það er hafa íslensk stjórnvöld t.d. verið ákaflega feimin við að gangast við því að í undirbúningi væru þessi þrjú stóru verkefni samhliða.

Fyrir rúmu ári spurði ég þáverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hvort ríkisstjórnin hefði í hyggju að hleypa þessu öllu af stað samtímis. Hann sagði að það dytti engum manni í hug. Það dytti engum manni í hug að það gæti gerst. En veruleikinn er sá að þetta er allt saman keyrt áfram á fullu. Hver og einn aðilinn telur sig vera í góðri trú um að svo fljótt sem hann er tilbúinn með sín plön geti hann sett græna ljósið á og hafið framkvæmdir.

OECD bendir á að þetta séu engu að síður þannig verkefni að yfirvöldum sé fært að búa svo um hnútana að stjórna því hvort þau fari af stað og þá að minnsta kosti hvenær þar eð þessi verkefni þarfnist samþykkis ríkisstjórnar og stuðnings þings og vegna þess að þjónustufyrirtæki í almenningseign yrðu að veita rafmagn til verkefnanna.

Auðvitað. Þetta er leyfisbundin starfsemi og það eru opinber fyrirtæki sem mundu selja þeim rafmagnið og þá fyrst og fremst Landsvirkjun. Að sjálfsögðu er hægt að hafa stjórn á þessu ef pólitískur vilji er til þess.

Ég vil svo að lokum leggja áherslu á, og styðjast þar við framsetningu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, hvert verkefnið er sem þarf að ráðast í. Það er með ólíkindum í raun þegar maður veltir fyrir sér hve mikið er í húfi að þetta skuli ekki hafa verið gert, að vönduð, breið, gagnsæ, óháð þjóðhagsleg úttekt á arðsemi þess fyrir þjóðarbúið að ráðast í þessari framkvæmdir hafi ekki verið gerð.

Hvað segja þeir t.d. um þetta, OECD-menn? Þeir segja á einum stað í skýrslu sinni sem ég lét þýða kafla úr í sumar eða haust því að ég sá hana hvergi í íslensku máli — undarlegt nokkuð að það virðist ekki hafa verið þýddur nema mjög lítill útdráttur úr skýrslunni — og vísa í sínar fyrri úttektir þar sem þeir hafa lagt þetta til, með leyfi forseta:

„Eins og stungið var upp á í síðustu úttekt ætti að meta frekari aukningu orkufreks iðnaðar á breiðum grunni með gagnsærri hagkvæmnisgreiningu (cost benefit framework) þar sem teknir eru til greina þættir eins og hæfilegt endurgjald fyrir nýtingu náttúruauðlinda, umhverfisáhrifin og áhættan og áhrifin á hagkerfið og framvindu þess. Hingað til hefur slík víðtæk úttekt, sem mundi gera mögulegt að meta hvort verkefnin eru hagkvæm fyrir landið og í þau eigi að ráðast, ekki verið gerð ...“

Svo mörg eru þau orð. Hingað til hefur slík víðtæk úttekt, sem mundi gera mögulegt að meta hvort verkefnin eru hagkvæm fyrir landið og í þau eigi að ráðast, ekki verið gerð.

Efnahags- og framfarastofnunin segir ósköp einfaldlega: Það liggur bara alls ekki fyrir af því að það hefur ekki verið kannað hvort það sé skynsamlegt út frá þjóðarhag Íslendinga að ráðast í þessi verkefni. Erum við kannski að fórna meiri hagsmunum fyrir minni? Erum við að baka okkur meira tjón í öðru atvinnulífi og þróunarmöguleikum á öðrum sviðum, öllu öðru útflutnings- og samkeppnislífi en það sem nemur ávinningunum af þessum fjárfestingum? Munum þá eftir því hversu lítil hlutfallslega nettóarðsemisáhrifin eru fyrir hagkerfið, hversu lítill hluti af veltunni í þessum fyrirtækjum endar inni í íslenska hagkerfinu af því að byggt er svo mikið á dýrum, erlendum aðföngum og arðurinn til erlendra eigenda rennur aftur úr landi.

Ef við bætum svo við þetta fórnarkostnaðinum gagnvart umhverfinu fer þá ekki dálítið að dökkna dæmið? Hverjir ætla að koma hér upp, minnugir reynslunnar af undangengnum fjórum árum og þess dýrkeypta herkostnaðar sem annað atvinnulíf og heimilin í landinu urðu að bera vegna ójafnvægisins, verðbólgunnar og vaxandi erlendra skulda og segja að ekki sé þörf á því að fara yfir þetta með faglegum og skipulegum hætti?

Ég hefði gaman af að heyra slíkar ræður ef þær verða einhverjar fluttar en legg nú til að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til (Forseti hringir.) síðari umr. og efnahags- og viðskiptanefndar. Ég hygg að það sé eðlilegra, frú forseti, að tillagan gangi þangað en til iðnaðarnefndar.