133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

heildararðsemi stóriðju- og stórvirkjanaframkvæmda fyrir þjóðarbúið.

19. mál
[18:56]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hvenær sem er tilbúinn til umræðna um hnattræn loftslagsáhrif og stöðu Íslands í því samhengi. Ég treysti mér alveg í umræður um það, þar á meðal að hrekja þann fáfengilega málflutning að Ísland geti með því að eyðileggja náttúru sína lagt eitthvað stórfenglegt af mörkum til umhverfismála hnattrænt. Ætli það sé ekki alveg gagnstætt, að við þurfum að gæta vel að þeim náttúrugersemum sem við höfum að annast um og gæta að í þágu alls mannkyns.

Varðandi losunarþáttinn er það reyndar þannig að öll þau lönd sem eru innan Kyoto-samningsins þurfa að kaupa losunarkvóta á móti nýrri iðnaðarstarfsemi. Þessi nettóáhrif eru alls ekki eins og margir vilja vera láta. Það er aðeins ef verksmiðjur eru byggðar í þróunarríkjum eða hjá umhverfissóðunum, Bandaríkjamönnum og Áströlum, sem dæmið getur litið öðruvísi út.

Varðandi Ísland hefur það reyndar verið þannig, vegna íslensku undanþágunnar, að losun verksmiðjanna er viðbót en það þarf ekki að kaupa kvóta út á móti losun verksmiðjunnar hér, öfugt við það sem væri í Evrópu eða Kanada, vegna þess að íslenska undanþágan er enn ekki fullnýtt. Það er hún að vísu að verða.

Varðandi það hvort arðsemisúttekt eigi að ganga aftur í tímann, allt til Búrfellsvirkjunar og Straumsvíkur, þá voru þær framkvæmdir að sjálfsögðu við allt aðrar og ósambærilegar aðstæður í hagkerfi okkar, þegar það var algjörlega lokað og reyndar á þrengingartímum eins og bent hefur verið á. Þensluáhrif og ruðningsáhrif voru ekki með sambærilegum hætti og á við í nútímanum. Það sem OECD er að benda á og við flytjum tillögu um er fyrst og fremst að menn stoppi núna og geri, þótt seint sé, þá hagkvæmnisúttekt sem aldrei hefur verið gerð.

Það getur verið sagnfræðilega fróðlegt að líta á þetta aftur í tímann en miklu meira máli skiptir þó að menn ani ekki áfram í blindni án þess að reyna að átta sig á því hvort einhver (Forseti hringir.) þjóðhagsleg glóra sé í þessu.