133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

textun.

30. mál
[19:12]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um textun, fyrir hönd flutningsmannanna hv. þingmanna Guðjóns A. Kristjánssonar, Sigurjóns Þórðarsonar, Kolbrúnar Halldórsdóttur, Guðrúnar Ögmundsdóttur, Björgvins G. Sigurðssonar og Katrínar Júlíusdóttur.

Í 1. gr. segir:

„Markmið laga þessara er að tryggja heyrnarskertum og heyrnarlausum aðgang að upplýsingum og afþreyingar- og fræðsluefni til jafns við þá sem hafa fulla heyrn.“

Í 2. gr. varðandi gildissvið segir:

„Eftirtöldum aðilum er skylt að texta allt efni sem þeir í atvinnuskyni senda út, framleiða eða dreifa:

1. sjónvarpsstöðvum sem hafa leyfi til sjónvarpsútsendinga samkvæmt útvarpslögum,

2. framleiðendum íslensks auglýsinga-, fræðslu-, kynningar- og sjónvarpsefnis, …

3. framleiðendum íslenskra kvikmynda, …

4. öðrum aðilum sem dreifa hér á landi kvikmyndum og auglýsinga-, fræðslu-, kynningar- og sjónvarpsefni, hvort sem efnið er til sölu eða leigu.“

Í 3. gr. frumvarpsins segir um textun efnis m.a.:

„Allt efni sem aðilar skv. 2. gr. senda út, framleiða eða dreifa skal textað með íslenskum texta óháð því á hvaða tungumáli efnið er.“

Í 4. gr. frumvarpsins um aðlögunartíma kemur m.a. fram:

„Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal aðilum sem falla undir lög þessi veittur fimm ára aðlögunartími frá gildistöku laganna til að uppfylla kröfur um textun efnis til samræmis við markmið 1. gr.“

Nánar er svo getið um aðlögunartímann hversu langur hann skal vera í ákveðnum tilfellum og jafnframt segir:

„Á meðan á aðlögunartíma stendur er aðilum skv. 2. gr. heimilt að sækja um styrk til uppbyggingar á nauðsynlegum tækjabúnaði og innleiðingar nýrrar tækni til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögum þessum. Textunarsjóður annast styrkveitingar samkvæmt þessari grein.“

Í 5. gr. er kveðið á um Textunarsjóð þar sem segir m.a.:

„Stofnaður skal Textunarsjóður sem hafi það að markmiði að styrkja aðila skv. 2. gr. til að koma sér upp nauðsynlegum tækjabúnaði og innleiða nýja tækni við textun efnis sem þeir senda út, framleiða eða dreifa.

Styrkir sem Textunarsjóður veitir eru óafturkræfir og geta numið allt að 80% af stofnkostnaði búnaðar.“

Gert er ráð fyrir að Textunarsjóður verði lagður niður þegar aðlögunartíma er lokið.

Í 7. gr. um gildistöku er reiknað með að lögin taki þegar gildi.

Ég ætla að drepa aðeins niður í greinargerðina, með leyfi forseta:

„Frumvarpi þessu er ætlað að tryggja að heyrnarskertir og heyrnarlausir njóti þeirra mannréttinda að geta notið frétta-, upplýsinga-, fræðslu-, kynningar-, auglýsinga- og afþreyingarefnis til jafns við þá sem heyra. Einungis hluti þess efnis sem sent er út á sjónvarpsstöðvum eða aðgengilegt er á myndböndum og stafrænu formi er með íslenskum texta ef tungumálið er íslenska. Flestar erlendar kvikmyndir og erlent sjónvarpsefni er með íslenskum texta til að almenningur geti notið þess til fulls og þykir það sjálfsagt og eðlilegt. Heyrnarskertir og heyrnarlausir fá ekki notið þessa sjónvarpsefnis, kvikmynda eða myndbanda nema það sé textað.“

Í greinargerðinni kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er talið að um 25 þúsund manns séu meira og minna heyrnarskertir að einhverju leyti þannig að þeir nái ekki að heyra efni sjónvarpsins.

Jafnframt kemur fram að talið er að textun stuðli að bættri lestrargetu heyrnarskertra barna og unglinga og annarra sem eru í lestrarnámi eða eiga við lestrarörðugleika að stríða. Þá er líka tekið fram að textun sé mikilvægur stuðningur við nýbúa sem eru að læra málið.

Einnig er rétt að geta þess að fram hefur komið, m.a. á Norðurlöndum, að fólk missir eitthvað af heyrninni um þrítugt en aldursviðmið var áður um fimmtugt. Það er farið að færast niður í aldri hvenær menn byrja að missa heyrn. Ein af ástæðunum sem er talin vera fyrir því er að unglingar verða stöðugt fyrir meira hávaðaáreiti sem gerir það að verkum að heyrnin skerðist fyrr á ævinni en áður. Það er sem sagt talið að heyrnin byrji að skerðast um þrítugt en ekki fimmtugt eins og áður var. Textun er ekki einungis fyrir heyrnarlausa heldur og einnig fyrir heyrnarskerta og gæti þess vegna átt við hvern sem er þegar fram í sækir.

Textun á efni er engin nýlunda í heiminum. Í greinargerðinni eru nefnd nokkur lönd sem hafa tekið mjög vel á þessum málum og sett lög er varða textun á sjónvarpsefni. Sem dæmi má nefna að í Austurríki er textinn um 170 klukkustundir á mánuði. Í Danmörku 189 klukkustundir, Spáni 446 klukkustundir, Sviss 240 klukkustundir og Þýskalandi 387 klukkustundir á mánuði. Í Englandi er 80% af öllu efni á BBC, ITV og C4 textað. Þegar fyrrnefnd lönd eru skoðuð og hversu gífurlega mikill hluti af sjónvarpsefni þar er textaður, er eðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvers vegna þetta sé ekki komið hér á landi, þ.e. að íslenskt sjónvarpsefni sé textað með íslenskum texta fyrir þá sem ekki eru heyrandi.

Úti í heimi hefur það gerst að með tímanum festist textun einfaldlega í sessi og þykir hún á mörgum stöðum eðlilegur hlutur í dag. En það hefur því miður ekki þótt hér, að minnsta kosti ekki enn. Það er umhugsunarefni, miðað við þá hagsæld sem menn segja að ríki á Íslandi, að yfirvöld skuli ekki hafa séð sér fært hingað til að taka upp lög, eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir varðandi textun. Hins vegar má líka velta því upp hvers vegna menn hafi ekki lagt slíkt fram mun fyrr.

En að lokum, það er óþarfi að hafa langt mál um þetta, herra forseti. Frumvarpið er mjög skýrt og því fylgir mjög góð greinargerð. Ég ítreka markmiðin í þessu frumvarpi til laga um textun, að tryggja heyrnarskertum og heyrnarlausum aðgang að upplýsingum og afþreyingar- og fræðsluefni til jafns við þá sem hafa fulla heyrn. Hér er að sjálfsögðu um mikið jafnréttismál að ræða og ég vænti þess að frumvarpið fái skjóta afgreiðslu.