133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

rannsóknir og sjálfbær nýting jarðhitasvæða.

368. mál
[20:00]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsóknir og sjálfbæra nýtingu jarðhitasvæða sem samin er og lögð fram af einum af okkar öflugu varaþingmönnum hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Álfheiði Ingadóttur. Ég flyt tillöguna með henni ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, Þuríði Backman og Jóni Bjarnasyni.

Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir því að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að leggja fyrir þingið tillögur sínar um hvernig lágmarka megi umhverfisáhrif ef ráðist er í rannsóknir og nýtingu jarðhitasvæða. Í tillögunni er gert ráð fyrir að m.a. komi fram:

1. Hvernig lágmarka megi umhverfisáhrif af rannsóknum á jarðhitasvæðum vegna hugsanlegrar nýtingar.

2. Hvernig lágmarka megi röskun umhverfis á undirbúnings- og vinnslustigi á svæðum þar sem leyfi hafa verið veitt.

3. Hvaða mælikvarða beri að leggja á sjálfbærni við nýtingu jarðhitasvæða.

Svo gerir tillagan ráð fyrir því að tillagan sem gert er ráð fyrir að ríkisstjórnin leggi fyrir þingið verði, ásamt hugmyndum um æskilegar lagabætur og reglur til að ná fram settum markmiðum, kynntar Alþingi Íslendinga fyrir 1. mars 2007.

Það er eðlilegt að sú dagsetning verði færð aftar ef okkur lánast að fá tillöguna afgreidda úr nefnd þar sem nokkuð hefur dregist að fá tækifæri til að mæla fyrir tillögunni.

Markmið tillögunnar er að Alþingi fái til skoðunar tillögur framkvæmdarvaldsins um hvernig lágmarka megi umhverfisröskun við nýtingu jarðhita og hvernig hagnýta megi jarðhitasvæði með sjálfbærum hætti. Kveikjan að henni má ég segja að sé komin af orkuþingi sem haldið var fyrr í vetur en þar var fjallað á nokkuð yfirgripsmikinn hátt um þessi mál. Greinargerð tillögunnar fylgja tvær greinar sem birtust í voldugu riti sem gefið var út á orkuþingi og ég mun gera frekari grein fyrir síðar í máli mínu.

Undanfarið hafa umræður um óafturkræf umhverfisáhrif stórra vatnsaflsvirkjana orðið til þess að menn hafa í auknum mæli beint sjónum að jarðvarmavirkjunum með þá von í brjósti að slíkar virkjanir skilji ekki eftir eins alvarleg sár í viðkvæmri náttúru landsins og vatnsaflsvirkjanirnar. Umhverfisáhrifin sem blasa við á Hellisheiði í tengslum við framkvæmdir við Hellisheiðarvirkjun, og við höfum séð í sjónvarpsfréttum síðustu daga, benda þó ekki til annars en að töluvert rask fylgi slíkum virkjunum. Þá hafa sjónir manna beinst í auknum mæli að því hvort ná megi meiri orku út úr háhitasvæðunum með nýrri tækni, svokölluðum djúpborunum. Þessi sjónarmið komu afar skýrt fram á téðu orkuþingi sem Samorka gekkst fyrir þar sem möguleg raforkuframleiðsla með jarðvarmavirkjunum fékk sérstaka athygli. Nokkuð ber á því sjónarmiði að um þær geti náðst meiri sátt en nú ríkir um stórar vatnsaflsvirkjanir á borð við Kárahnjúkavirkjun.

Í fyrsta áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma var megináhersla lögð á mögulegar vatnsaflsvirkjanir og því er aðeins búið að meta gróflega lítinn hluta mögulegra orkuöflunarkosta í jarðvarma. Þær jarðvarmavirkjanir sem þó komust á blað í fyrsta áfanga rammaáætlunarinnar virðast fremur sakleysislegar að því er varðar áhrif þeirra á náttúru og umhverfi, með þeim fyrirvara þó að ekki lá fullnægjandi þekking og reynsla að baki matinu á þeim, enda skortir tilfinnanlega rannsóknir á lífríki háhitasvæða.

Umhverfisáhrif af jarðvarmavirkjunum eru þó þekkt að ýmsu leyti og vitað að svæðin eru viðkvæm og lengi að ná sér hafi þeim verið raskað. Þar sem vinnsla er hafin á háhitasvæðum blasa við borplön, stórvaxin háspennumöstur og -línur, haugsvæði, slóðar og þéttriðin net uppbyggðra vega og vatnsröra. Umgengni og frágangi framkvæmdaraðila er í ýmsum tilfellum ábótavant og alkunna er að fyrstu rannsóknir, sýnataka og tilraunaboranir spilla ásýnd svæðanna umtalsvert. Til marks um þetta má nefna að í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands um umsókn orkufyrirtækja um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum segir m.a., með leyfi forseta:

„Eftir jarðhitarannsóknir, eins og fyrirhugaðar eru í Brennisteinsfjöllum, verður svæðið ekki lengur ósnortið og forsendur fyrir frekari vernd þess breyttar að sama skapi. Rannsóknarleyfi jafngildir því stefnumörkun um framtíðarnýtingu.“

Um umgengni og mannvirkjagerð á jarðhitasvæðum gilda almenn ákvæði náttúruverndarlaga, og njóta heitar uppsprettur, hrúður og hrúðurbreiður, 100 fermetrar að stærð eða stærri, sérstakrar verndar. Framkvæmdir við jarðhitavirkjanir fara fram að undangengnu umhverfismati. Oft er þó vikið frá upphaflegri hönnun og leyfum hvað varðar efnistöku, haugsvæði og vegagerð, og stysta og ódýrasta leiðin valin. Eftirliti með frágangi er gjarnan ábótavant. Þannig valda framkvæmdaraðilar oft óþarfaraski á jarðmyndunum, gróðri og ásýnd jarðhitasvæða, sem hindrar síðari tíma nýtingu svæðanna til ferðamennsku eða annarrar náttúruvænni nýtingar.

Stóru orkufyrirtækin, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja, hafa að undanförnu att kappi um rannsóknar- og nýtingarleyfi á flestum ef ekki öllum háhitasvæðum landsins. Þetta kemur vel fram í nýútkominni skýrslu auðlindanefndar, „Framtíðarsýn um nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls“, sem kynnt var í október 2006. Menn bíða í ofvæni eftir því að sjá frumvarp sem byggir á tillögum þessarar nefndar. Það mun vera í farvatninu þó að einhverjir hnökrar virðist hafa komið á framgang þess máls innan þingflokka ríkisstjórnarinnar. Í skýrslu þessari er birt tafla yfir útgefin rannsóknarleyfi á jarðhitasvæðum og taldar upp þær umsóknir um rannsóknarleyfi sem iðnaðarráðuneytinu hafa borist: Í greinargerð með tillögu þessari sem ég hér mæli fyrir er vitnað sérstaklega til þessarar skýrslu og birt tafla um útgefin rannsóknarleyfi fyrir jarðhita eins og sú útgáfa stóð í ágúst 2006. Mér er ekki kunnugt um að hún hafi breyst síðan. Ég veit ekki betur en að allt sé í frosti í iðnaðarráðuneytinu hvað það varðar að ekki sé verið að gefa út ný leyfi til rannsókna fyrr en lagasetning á grundvelli tillagna auðlindanefndarinnar er komin í gegnum Alþingi.

Svo kemur sömuleiðis fram í skýrslunni „Framtíðarsýn um nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls“ að hjá iðnaðarráðuneytinu bíði nú afgreiðslu 21 umsókn um rannsóknarleyfi vegna jarðhita og vatnsafls á 15 svæðum en þar af eru um 12 umsóknir vegna jarðhita og níu vegna vatnsafls. Þar kemur fram að svæðin sem um er að ræða vegna jarðhita eru Brennisteinsfjöll, Fremri-Námar, Gjástykki, Grændalur, Kelduhverfi, Kerlingarfjöll, Krýsuvík og Torfajökulssvæði.

Ásókn orkufyrirtækjanna í þessi rannsóknarleyfi á nýjum og viðkvæmum háhitasvæðum veldur, a.m.k. okkur sem aðhyllumst náttúruvernd og beitum okkur gegn þeim stóriðjuáformum sem uppi eru, áhyggjum þar sem við blasir eyðilegging á ásýnd og landslagi þar sem rannsóknarleyfi hafa verið veitt eins og t.d. á Reykjanesi og Hellisheiði. Hafa ber í huga að rannsóknarleyfi eru ekki nýtingarleyfi og veita því enga heimild fyrir fullvinnslu orku á viðkomandi svæði. Hins vegar segir það sig sjálft að þegar búið er að raska svæði að hluta með rannsóknum er erfiðara að koma í veg fyrir nýtingu í ljósi þess að svæðinu hefur þegar verið raskað með rannsóknunum. Tilhneigingin er því sú að ef búið er að hleypa rannsóknaraðilum inn, búið að gera borplön og bora tilraunaholur er svo einfalt mál að segja: Já, auðvitað verðum við að halda áfram og það verður bara að gefa nýtingarleyfi, það er hvort sem er búið að raska svæðinu.

Það skiptir öllu máli í þessu tilliti að ekki sé farið inn á ný svæði nema gildar ástæður séu til. Og hverjar væru þær gildu ástæður? Í mínum huga almannahagsmunir en ekki hagsmunir orkufyrirtækja eða stóriðjufyrirtækjanna, sannarlega ekki. Við hvetjum til að hér verði farið með gát í einu og öllu og það er brýnt að reglur um lágmörkun umhverfisáhrifa á jarðhitasvæðum liggi fyrir áður en farið verður að úthluta nýjum rannsóknarleyfum á grundvelli tillagna auðlindanefndarinnar. Ég minni á fyrirvara þeirrar sem hér stendur við skýrslu auðlindanefndarinnar sem lýtur m.a. að því að niðurstöður úr rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma séu afar gallaðar og ekki til að byggja á neinar endanlegar niðurstöður í þessum efnum.

Ég er komin að kafla um sjálfbæra nýtingu í þessari greinargerð sem er kannski sá síðasti sem ég fer yfir í þessari ræðu þar sem tími minn fer að styttast. Þar kemur fram að reglurnar þurfi einnig að taka til umgengni og vinnulags við nýtingu, rekstur og viðhald jarðvarmavirkjana á háhitasvæðum þannig að vinnsluleyfi jafngildi ekki eyðileggingu á náttúru svæðanna. Slíkt er líka óþarft með nútímatækni og -samgöngum svo sem áður er nefnt þannig að ekki er þörf á uppbyggðum vegum að og frá háspennumöstrum vegna viðhalds þar sem viðgerða á þeim er helst þörf yfir háveturinn þegar notast má við snjóbíla og vélsleða. Það er sem sagt grundvallaratriði í okkar huga sem flytjum þessa tillögu að þegar jarðhitinn er nýttur verði sú nýting sjálfbær. Það er ekki einfalt mál eins og kemur fram í greinum þeim sem hér eru birtar sem fylgiskjöl með tillögunni.

Fyrri greinin er eftir Sveinbjörn Björnsson og heitir „Orkugeta jarðhita“. Hún byggir á erindi sem flutt var á orkuþingi 2006 og fjallar Sveinbjörn þar á afar greinargóðan, aðgengilegan og skiljanlegan hátt um orkugetu háhitasvæðanna. Hann fjallar um stærð helstu háhitasvæða og orkugetu þeirra, víðáttu háviðnámskjarna og tæknilega vinnanlegt afl á helstu háhitasvæðunum og virkjanir sem þegar eru komnar á háhitasvæðin, varmaforða háhitasvæðanna og varmaforða í miðrein gosbeltanna. Allt er þetta afar fróðlegt aflestrar en í lokin kemur Sveinbjörn inn á sjálfbæra nýtingu og það hversu miklir möguleikar eru á því að svæðin endurnýi sig. Í greininni kemur fram að ef ekki er unnt að nýta afgangsvarmann sem til fellur við uppdælingu frá raforkuframleiðslunni til húshitunar eða iðnaðar er æskilegt að honum sé skilað aftur niður í varmageyminn.

Sveinbjörn segir, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi hjálpar niðurdæling afgangsvatns til að halda uppi þrýstingi í jarðhitakerfinu og viðhalda afli í vinnsluholum, auk þess minnkar hún hættu á innrás kaldara vatns frá umhverfi. Varminn í afgangsvatninu bætir einnig fyrir þann varma sem burt var numinn þótt honum sé skilað við lægri hita en þegar hann var tekinn. Í þriðja lagi dregur niðurdæling úr umhverfisspjöllum á landi af völdum afgangsvatnsins, þótt það hafi stundum nýst til baða eins og í Svartsengi og við Námafjall.

Þar sem vinnsla jarðhita felur jafnan í sér varmanám sem er hraðara en endurnýjun varmans með varmaleiðingu eða aðstreymi vatns og gufu, getur vinnslan ekki talist sjálfbær nema hlé séu gerð á henni til þess að leyfa jarðhitakerfinu að jafna sig eftir varmanámið.“

Virðulegi forseti. Þetta finnst mér afar athyglisverð niðurstaða hjá Sveinbirni, að vinnslan geti ekki talist sjálfbær nema gerð séu hlé á henni til þess að leyfa jarðhitakerfinu að jafna sig. Sveinbjörn bendir á að betur sé fjallað um þetta í annarri grein sem birtist líka í riti orkuþingsins. Sú er eftir Guðna Axelsson, reyndar Sveinbjörn líka og Valgarð Stefánsson og er einnig birt sem fylgiskjal með tillögu þessari. Meginniðurstaða hennar er að hagkvæmast muni að auka vinnsluna í þrepum en reynist hún of ágeng þurfi að hvíla jarðhitakerfið í álíka eða nokkru lengri tíma en vinnslan hefur staðið. Dæmi um vinnslutíma væri 30 ár en hvíld í 30–50 ár. Ef ágeng vinnsla er stunduð lengi í byrjun getur hún leitt til þess að orkugeta kerfisins til lengdar verði minni en það jafnvægi sem næðist með hæfilegum tímabilum vinnslu og hvíldar. Einnig þarf að huga að endurheimt fyrri landgæða þegar hlé er gert á vinnslu eða henni hætt. Um hana má vísa til fyrirmynda hjá olíuiðnaði og þeirra skilyrða sem hann verður að hlíta um frágang og niðurrif mannvirkja að nýtingu lokinni.

Þetta er afar athyglisverð niðurstaða sem þessir færu vísindamenn okkar komast að í þeim greinum sem fylgja hér með þessari tillögu og ég hvet áhugasama endilega til að kynna sér. Ef raunin er að raforkuvinnsla á jarðvarma sé ekki sjálfbær nema á þann hátt að kerfin séu hvíld reglulega — við erum að tala um kannski 300 ára tímabil sem lagt er mat á og ef vinnslan er ágeng eins og hún hefur verið í þeim kerfum sem við höfum nú þegar hafið vinnslu á er talið eðlilegt að jarðhitakerfin þurfi að hvíla sig í 30–50 ár ef búið er að vinna orkuna í 30–50 ár þar á undan. Þetta er ferli sem vísindamennirnir gera grein fyrir í þessum greinum og það segir mér aðeins eitt: Vinnsla raforku úr jarðvarma er eitthvað sem við eigum að fara afar sparlega með og alls ekki spandera á stóriðju.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hv. iðnaðarnefndar til frekari umfjöllunar og síðan síðari umr. Mér þætti líka fengur að því og bendi iðnaðarnefnd kannski á það hér í þessari umræðu að fá umsögn um þetta mál hjá umhverfisnefnd Alþingis. Ég tel að þetta sé dæmi um mál sem þessar nefndir hafa báðar á verksviði sínu og því væri fengur að því að báðar nefndirnar fjölluðu um það.