133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

stefna í loftslagsmálum.

[15:08]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem hv. þingmaður vitnaði til er að sjálfsögðu mjög merkileg og efni hennar er grafalvarlegt. Skýrslan staðfestir, þó hún sé aðeins fyrsti hluti af nokkrum sem eiga að koma fram á næstunni í verkefni þessarar nefndar Sameinuðu þjóðanna, að hlýnun loftslags er ekki bara staðreynd heldur bendir allt til þess að það sé a.m.k. að hluta til af mannavöldum. Þess vegna er brýnt að þjóðir heims taki sig saman og sporni við fótum.

Hins vegar er jákvætt í skýrslunni að fram kemur að ekki er gert ráð fyrir að breytingar verði á Golfstraumnum eins og sumir höfðu óttast. Þar eru auðvitað miklir hagsmunir Íslands í húfi að ekki verði breyting þar á en sumir höfðu spáð því fyrir nokkru síðan að vegna þessara loftslagsbreytinga yrði Ísland umlukið hafís áður en mjög langt um liði. Sem betur fer er það ekki líklegt.

Stærsti vandinn í þessu er að sjálfsögðu notkun eldsneytis og annarra efna sem kalla fram losun á koldíoxíði en besta lausnin frá sjónarhóli alheimsins er að nýta sem mest og best endurnýjanlega orku eins og við Íslendingar höfum í miklum mæli. Það er rangt að gera því skóna að eitthvað af því sem hér er að gerast sé með einhverjum hætti Íslendingum að kenna. Þvert á móti höfum við lagt okkar af mörkum til að draga úr mengun og auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa og það sem við getum jafnframt gert er að flytja út tækni og þekkingu til annarra til að nýta sér þá tækni.