133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

málefni Byrgisins og ráðherraábyrgð.

[15:17]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Auðvitað á núverandi félagsmálaráðherra ekki að segja af sér út af þessu máli. Það er hann í krafti embættis síns sem hefur beitt sér fyrir því að það var farið yfir þetta mál með þeim hætti sem nauðsynlegt var eftir að það fyrst kom upp.

Auðvitað, hv. þingmaður og virðulegi forseti, var víða pottur brotinn í þessu máli, því miður. En viljum við þá ekki rifja aðeins upp hverjir það voru sem hvöttu kannski helst til þess að meiri og meiri fjármunir yrðu settir til Byrgisins? (Gripið fram í: Hverjir voru það?) Af hverju lesa menn ekki þingtíðindin fyrir t.d. afgreiðslu fjárlaga 2003? (Gripið fram í.) Hvaða þingmenn voru það, já? (Gripið fram í: Hverjir voru það?) Í stjórnarandstöðu og stjórn —

(Forseti (RG): Forseti krefst þess að það sé hljóð í salnum.) (Gripið fram í: … stjórnarandstöðunnar.)

Ég sagði það ekki, hv. þingmaður, ég sagði í stjórnarandstöðu og stjórn. Og ég held að stjórnarandstöðuþingmennirnir ættu sérstaklega að lesa sín eigin ummæli um þetta (Gripið fram í: Af hverju …?) og þær heitstrengingar sem uppi voru hafðar af þeirra hálfu varðandi þetta mál, eins og reyndar ýmis önnur mál í kringum afgreiðslu fjárlaga. (Gripið fram í.)

Málið varðandi Byrgið er því miður orðið að hneykslismáli. Það er fjárhagslegt hneykslismál en það er líka hneykslismál hvað varðar mannlega þætti í þessari starfsemi. Þetta mál er allt til rannsóknar og athugunar hjá réttum aðilum og vonandi kemur hið sanna í ljós varðandi alla þætti þessa máls. Framkvæmdin á þessum fjárveitingum til Byrgisins var að sjálfsögðu í viðkomandi fagráðuneyti. Þar virðist hafa verið pottur brotinn hvað varðar eftirlit. Hvort það er einhverjum einstökum manni að kenna vil ég auðvitað ekki dæma um.

En ef menn vilja beita lögum um ráðherraábyrgð hér er það nú nokkuð seint gert. Þeir félagsmálaráðherrar sem komu að þessu máli eru nú báðir hættir og tel ég reyndar mjög úr stíl (Forseti hringir.) og fjarri lagi að þessi ákvæði laganna hefðu átt við um embættisfærslur þeirra í málinu.