133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um tekjudreifingu.

[15:36]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég get tekið undir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði um þetta mál og taldi mikilvægt að heyra viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við svona merkilegum niðurstöðum. Sannarlega eru þær stórmerkilegar. En það er heldur dapurlegt að heyra að þegar út kemur skýrsla sem byggir á samevrópskri aðferðafræði og leiðir í ljós að ýmsir háskólamenn og stjórnmálamenn hafa rangt fyrir sér skuli hv. þingmenn kalla þessa umræðu okkar hæstv. forsætisráðherra merkilegt leikrit. (Gripið fram í.) Það sem er mikilvægt í þessu er, og sá er kjarni málsins sem væri óskandi að menn vildu ræða, að skýrslan leiðir í ljós að tekjuskipting á Íslandi er mun jafnari en í flestum öðrum ríkjum Evrópu. (Forseti hringir.) Það verður fróðlegt að sjá hvernig hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir o.fl. munu bregðast við þessum tíðindum.