133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

fyrirspurnir til ráðherra.

[15:51]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég verð að segja í ljósi þess sem fram kom hjá síðasta hv. þingmanni um að ég hefði orðið mér til skammar í umræðum um tekjudreifingu á Íslandi, að það eru ummæli sem ég hefði talið að hæstv. forseti ætti að gera athugasemdir við og biðja hv. þingmann um að gæta orða sinna, vegna þess að ég tel að hvorki hafi verið efni né ástæður til þess fyrir hv. þingmann að láta slík orð falla.

Það sem ég var að gera í umræðunni í óundirbúnum fyrirspurnum var að ég ræddi um nýja skýrslu Hagstofu Íslands þar sem fjallað er um lágtekjumörk og tekjudreifingu á Íslandi árin 2003 og 2004. Þar kemur fram að tekjuskipting á Íslandi er mun jafnari en í flestum öðrum ríkjum Evrópu. Þetta eru mjög merkileg tíðindi og þau eru líka mikilvæg.

En stjórnarandstöðuflokkarnir og þar á meðal hv. þm. Mörður Árnason getur ekki hlustað á sannleikann og hann þolir ekki að heyra að þær ræður sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa haldið um þessi mál eru rangar. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður þolir ekki að heyra að tekjuskipting á Íslandi er mun jafnari en í flestum öðrum ríkjum Evrópu. Og þegar einhver þingmaður vogar sér að nefna það í ræðu í þinginu er það kallað leikrit. Það er kallað leikrit þegar þingmaður kemur hérna upp í þjóðþinginu til að fara yfir fátækt og tekjudreifingu á Íslandi. Ja, heyr á endemi.

Frú forseti. Ég ætla ekki að gera frekari athugasemdir við fundi þína.